151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[21:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar í seinni ræðu minni við 3. umr. að koma aðeins inn á fjárhagsleg áhrif málsins eins og reynt er að leggja mat á þau. Fyrst vil ég þó minna á það sem ég kom inn á í fyrri ræðu minni um að hafa yrði í huga mat á þeim afleiddu áhrifum sem sú landkynning skilar sem verður af þeim verkefnum sem hér um ræðir. Mig langar að grípa stuttlega niður í greinargerðina með frumvarpinu. Því er ætlað að framlengja um fjögur ár lögin sem upphaflega voru sett árið 1999. Ég held að gildistíminn hafi verið framlengdur um fjögur ár jafnt og þétt frá því málið kom fyrst fram. En eins og segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi ekki beint í för með sér að útgjöld til þessara endurgreiðslna aukist sjálfkrafa frá því sem verið hefur þá er ljóst að útgjöldin til endurgreiðslukerfisins geta breyst mikið milli ára í samræmi við breytta eftirspurn eftir endurgreiðslum hverju sinni. Á árunum 2016–2019 hafa árleg útgjöld til þessara endurgreiðslna verið á bilinu 1–1,4 milljarðar kr. á ári og hefur fjárveiting á fjárlögum fyrir þessi ár, sem hefur verið í kringum 1–1,2 milljarðar kr., að jafnaði dugað þó að í einhverjum tilfellum hafi þurft að fresta greiðslum eins og lögin heimila.

Á árinu 2020 hækkuðu endurgreiðslurnar verulega og urðu samtals um 2,4 milljarðar kr. en fjárveiting fjárlaga það ár nam tæpum 700 millj. kr. Veitt var sérstakt 2,1 milljarða kr. viðbótarframlag í fjárauka 2020 til að mæta þeim kostnaði.“

Í fjárlögum 2021 er gert ráð fyrir að fjárveitingin verði um 1 milljarður kr. Þetta er auðvitað erfitt að áætla og maður hefur skilning á því. En á sama tíma og gert er ráð fyrir útgjöldum í fjárlögum fyrir árið 2021 upp á 1 milljarð kr. segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Kvikmyndamiðstöð Íslands eru endurgreiðslur á árinu 2021 áætlaðar um 3,8 milljarðar kr. en fjárveiting ársins er, eins og áður segir, um 1 milljarður kr. Hér ber þó að hafa í huga að hér er um að ræða útistandandi vilyrði fyrir árin 2018–2021.“

Ég bendi á það í því ljósi að þetta er auðvitað menningartengdur styrkur, hvort sem við köllum það skattafslátt eða beinan styrk. Með vísan í þriðja fasann af því sem ég reyndi að teikna upp í fyrri ræðu minni um langtímaáhrifin af landkynningunni er þetta líka stuðningur við ferðaþjónustuna. Þarna virðast stjórnvöld setja kíkinn svolítið fyrir blinda augað. Þegar fyrir liggja upplýsingar frá Kvikmyndamiðstöð Íslands um áætlaðar endurgreiðslur á árinu 2021 upp á 3,8 milljarða samkvæmt regluverkinu, eins og það liggur fyrir, þá er áætluð fjárveiting upp á 1 milljarð. Ef niðurstaðan er sú að þetta skili þeim afrakstri að 3,8 milljarða endurgreiðsla sé skynsamleg fyrir ríkissjóð held ég að það væri gott ef menn gerðu reka að því að reyna að forma módel sem drægi sérstaklega fram langtímaáhrifin, því fyrstu tveir fasarnir, eins og ég teiknaði nálgunina upp í fyrri ræðu minni, eru gegnsærri. Auðvitað eru ótalmargir þættir efnahagslífsins þar sem stuðningur sem þessi myndi skapa veruleg viðbótaráhrif og arð í samfélaginu. Oft og iðulega er slegist um kostnað við loðnuleit, jafnvel árlega, en góð loðnuvertíð skilar tugum milljarða í þjóðarbúið. Ég vil nefna það í þessu samhengi. Það eru auðvitað fleiri tækifæri til fjárfestinga ef við lítum á þetta sem fjárfestingu og vil vekja athygli á því hversu mikill munur er á mati Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og framlögum í fjárlögum fyrir árið 2021.