153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

aðgerðir ríkisstjórnar í efnahagsmálum.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fjármálaáætlunin er til meðferðar á Alþingi og verður áfram, eins og kom fram í mínu fyrra svari. Hv. þingmaður spurði hér áðan sérstaklega um vaxtabætur, húsnæðisstuðning og leigubremsu. Þó að hv. þingmaður telji að það sem gerðist fyrir fjórum mánuðum telji ekki þá ætla ég samt að leyfa mér að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að lífið byrjaði ekki í gær. Við hækkuðum hér skerðingarmörk vaxtabóta um 50% um áramótin, við hækkuðum húsnæðisstuðning, og ég ætla að rifja það upp því að hér er rætt sérstaklega um verkalýðshreyfinguna: Hún situr í hópi innviðaráðherra sem er einmitt að fást við það hvernig megi skapa betri ramma um leigumarkað. Það er auðvitað risastórt mál því að hér hefur í raun verið ónógur rammi um leigumarkaðinn, ónægar upplýsingar. Fyrsta skrefið var stigið hér á þingi bara fyrir áramót þar sem tekið var upp skráningargjald á tilteknum leigusamningum. Við erum á þessari vegferð þannig að verður þetta tekið til umræðu? Já, ég veit ekki nákvæmlega hvenær hópur innviðaráðherra skilar af sér, en þar sitja aðilar vinnumarkaðarins. Og ég vil bara ítreka það, af því að hv. þingmanni verður tíðrætt um kjarasamninga: Hér er starfandi þjóðhagsráð og þar er farið yfir þessi mál og það munu koma fram tillögur þar, hér eftir sem hingað til.