153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

frumvarp um heimildir ríkissáttasemjara.

[13:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því þegar við vorum saman í sjónvarpsþætti að ríkisstjórnin var svolítið upptekin við að tala um að hún hefði setið lengst allra þriggja flokka stjórna. Það er bara fínt, ég óska henni til hamingju með það, en það væri kannski meira um vert að vita hvað hún væri nákvæmlega að gera. Það er það sem er ákall eftir. Þegar við ferðumst um landið, hvert sem við förum, norður, vestur, austur, suður, þá er verið að tala um að ríkisstjórnin verði að fara að taka ákvarðanir sem skipta fólkið máli.

Hér var verið að tala um vexti og verðbólgu. Það er ekkert verið að liðka fyrir því og ég heyri ekki betur en að forsætisráðherra ætli sér lítið að gera núna áður en þing hættir í sumar. Það er sama varðandi orkuskiptin, það vantar ákvarðanir í orkumálum o.s.frv. en það sem kannski truflar mig mest núna, og mín spurning til hæstv. fjármálaráðherra beinist að, er að einn lykilþáttur varðandi baráttuna við verðbólguna til að fá hér stöðugleika eru kjaraviðræður. Við erum að sjá að Seðlabanki Íslands hefur ítrekað sagt að það sé ófært að hann einn, seðlabanki, beri byrðarnar af því að berjast við verðbólguna. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sáttur við yfirlýsingu um að það eigi að koma með frumvarp sem eigi að liðka fyrir og auka heimildir til ríkissáttasemjara, að það komi ekki núna og klárist ekki núna fyrir mjög erfiðan kjaravetur fram undan. Ég spyr: Var eining um það í ríkisstjórninni að fresta því máli? Það er lykilatriði að mínu mati til að kjaraviðræður gangi vel fyrir sig að menn viti að ríkissáttasemjari hafi heimildir til þess að liðka fyrir í kjaradeilum og ganga inn í snúnar kjaradeilur, og þær eru snúnar og mjög erfiðar fram undan. Var eining um þetta í ríkisstjórn, að fresta þessu máli fram á haust?