153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

undanþágur fyrir Ísland vegna losunarheimilda.

[13:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Margir hæstv. ráðherrar og þingmenn meiri hlutans höfðu lýst gríðarlegum áhyggjum af nýjum flugsköttum Evrópusambandsins sem er liður í umhverfispakka þeirrar stofnunar sem Ísland ætlar því miður að álpast til að fylgja. En þrátt fyrir öll stóru orðin um að þetta væri algjörlega ótækt þá fór eins og ég óttaðist og spáði reyndar oftar en einu sinni hér í þinginu; boðað var til blaðamannafundar og kynnt einhvers konar gervisamkomulag sem breytir engu í raun. Jú, það á að gefa afslátt í tvö ár, sem voru reyndar hvort eð er árin þar sem aðlögunin átti að vera í gangi. Hvers vegna tilkynnir hæstv. forsætisráðherra um þetta áður en málið er tekið fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni? Er það til þess fallið að styrkja stöðu okkar þar að forsætisráðherrann sé þegar búinn að lýsa yfir uppgjöf í málinu eða stendur kannski ekki til að fara fram á varanlegar undanþágur fyrir Ísland í sameiginlegu EES-nefndinni? Eru menn einfaldlega búnir að gefast upp? Og hvað tekur við eftir tvö afsláttarár? Þá fer Ísland inn í þetta kerfi sem ráðherrar hafa ítrekað og réttilega lýst svo að sé óaðgengilegt fyrir Ísland og ekki sé hægt að samþykkja. En það er þá að fara að taka við að tveimur afsláttarárum liðnum.

Spurningarnar eru þessar: Verður þetta ekki tekið fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. varanlegar undanþágur fyrir Ísland frá þessu máli sem hentar okkur svona illa, og hvað átti að taka við eftir afsláttarárin samkvæmt hugmyndum Ursulu von der Leyen og hæstv. forsætisráðherra?