154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[18:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa góðu og miklu skýrslu sem verður örugglega gott lesefni á náttborðinu næstu daga. En ég get ekki orða bundist og vil fá að ræða hérna aðeins áherslur á norrænt samstarf. Það er auðvitað af mörgu að taka í skýrslunni en ég ætla að fá að leyfa mér að tala bara um gildi norræns samstarfs verandi forseti Norðurlandaráðs. Eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á áðan þá er það svo sannarlega þannig að formennskuáætlunin okkar ber yfirskriftina Friður og öryggi á norðurslóðum. Það er full ástæða fyrir því að við veljum nákvæmlega þetta efni og það er sú ástæða að við teljum nauðsynlegt að fá Norðurlöndin með okkur í lið við að horfa svolítið í auknum mæli upp á norðurskautið og það sem er að gerast þar. Þar sjáum við auðvitað loftslagsbreytingarnar í svo skýru ljósi, áhrif loftslagsbreytinganna því að þar eru þær hraðari en nokkurs staðar annars staðar. Það veldur því að ísinn er að bráðna, það opnast siglingaleiðir og öryggi á þeim slóðum kann að vera ógnað með ýmsum hætti, bæði af völdum loftslagsbreytinganna en ekki síður af völdum þeirra sem áseilast einhverjar auðlindir sem þarna kunna að vera eða með einhverjum hætti telja sig vera að verja eitthvað sem þeir vilja halda utan um. Þarna er auðvitað verið að vísa sérstaklega í Rússa sem hafa verið hvað agressífastir í uppbyggingu hernaðarmannvirkja á norðurslóðum. Þess vegna er full ástæða til þess að önnur norðurslóðaríki horfi sérstaklega á það sem þarna er að gerast og séu viðbúin því að þarna gæti ástand breyst hratt og alla vega ljóst að þessi ríki þurfa að sýna ákveðinn fælingarmátt, að þau séu með augun á boltanum eða augun á þessu svæði.

Ástæðan fyrir því að við erum að ræða þetta núna í Norðurlandaráði er ekki síst að það vantar vettvang fyrir þingmenn norðurslóðaríkja til að ræða öryggis- og varnarmál á norðurslóðum. Eins mikilvægt og norðurslóðaráðið er, og auðvitað er ákveðin krísa þar núna eftir fulla innrás Rússa í Úkraínu, þá er það ráð þar sem ákveðið var að ræða ekki um öryggis- og varnarmál. Það þýðir að þingmannasamtökin sem hafa fylgt norðurslóðaráðinu, SCPAR, hafa líka verið með það sem markmið að ræða ekki öryggis- og varnarmál. Þrátt fyrir að staðan sé sú að Rússar taki ekki þátt á þeim vettvangi, eins og staðan er núna, þá er engu að síður mikil feimni við að ræða þennan málaflokk þar. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að Norðurlöndin taki sig saman og sameinist svolítið um sýn og stefnu í málefnum norðurslóða og tali fyrir friði en ekki síst öryggi á þessu svæði.

Ég vil taka undir það sem ráðherra sagði á ráðstefnu hérna fyrr í dag og ekki síður það sem er yfirskrift greinar hennar; „Hvers virði er friður án frelsis?“ Það er alveg ljóst að eins fallegur og friður er og eins fallegt og það er að vera friðelskandi þjóð og herlaus þjóð þá eru aðstæður í heiminum bara allt aðrar í dag en þær voru kannski fyrir fimm eða tíu árum síðan. Við getum ekkert lokað augunum fyrir því að það að vera þátttakandi í stærsta varnarbandalagi í heimi eða vera með varnarsamning við Ameríku eða ræða þessi mál og vera með sameiginlega sýn með hinum vinum okkar á Norðurlöndunum skiptir máli og það skiptir verulega miklu máli. Og til að við getum líka tekið þessa umræðu af einhverju viti er nauðsynlegt að auka þekkingu okkar þingmanna og stjórnkerfisins alls á varnarmálum. Þar óttast ég að við stöndum kannski aðeins höllum fæti og langar því að nota tækifærið og hvetja ráðherrann áfram í þeirri vinnu að við séum að búa til og byggja upp þekkingu inni í ráðuneytinu okkar á varnar- og öryggismálum, á málefnum norðurslóða og að við þingmenn tökum það líka til okkar í umræðum um þessi mál, á málþingum og annars staðar þar sem við tökum þátt.

Ég vildi bara koma aðeins inn á þennan málaflokk og verð náttúrlega líka að segja, og ég hef nú kastað því fram hér áður í ræðu, að Norðurlöndin eru farin að vinna í auknum mæli saman í varnarmálum og við höfum fengið kynningu á því á vettvangi Norðurlandaráðs að það hefur verið unnið að ákveðinni innkaupastefnu saman, flugherir landanna hafa æft mikið saman og það eru haldnar stórar æfingar, bæði á vettvangi NATO og líka hinna Norðurlandanna. Ég er hreinlega farin að velta því fyrir mér hvort það kunni að vera einhver framtíðarsýn að norrænir herir sameinist enn frekar. Þá gæti Ísland meira að segja verið þátttakandi í slíku samstarfi. Þó að við státum okkur af því að vera herlaus þjóð þá kann það að vera falleg hugsun í einhverju en hversu langt nær sú hugsun ef við ætlumst til þess að það séu þá einhverjir aðrir sem verja okkur ef til þess kæmi? Þá hef ég velt því fyrir mér hvort það væri eðlilegt að Norðurlöndin sameinuðust enn frekar á þessum vettvangi. Við sjáum hvað er að gerast á hinum Norðurlöndunum þar sem er verið að auka við herskylduna. Það er verið að setja umtalsvert meiri fjármuni í þessi mál, hvort sem það er að fjármagna herinn eða önnur varnar- og viðbúnaðarmál, því að þegar við ræðum um þessi öryggismál þá er hernaðarlegt öryggi eitt en annað og ekki síðra er borgaralegt flugöryggi og það sem við glímum við mjög reglulega hér sem eru almannavarnir ýmsar og öryggi því tengt.

Að því sögðu þakka ég kærlega fyrir þessa góðu skýrslu og þessa fínu umræðu sem er búin að eiga sér stað hérna í dag. Það er mikilvægt að við ræðum þennan málaflokk og mér finnst við frekar gera of lítið af því heldur en of mikið á þessum vettvangi.