132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt að það hafi komið eins og köld vatnsgusa framan í garðyrkjubændur þegar birtist í fjölmiðlum 24. febrúar sl. frétt þess efnis að undirritað hefði verið samkomulag um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur við Evrópusambandið sem fæli í sér að öll tollvernd á trjám, runnum og fjölærum garðplöntum og sumarblómum félli niður frá og með næstu áramótum.

Vissulega er ástæða til að gleðjast yfir ávinningi hjá öðrum landbúnaðarvörum sem hæstv. landbúnaðarráðherra minntist hér á en dapurlegt ef gera þarf það í skiptimynt fyrir aðrar. Það hefur komið fram að ekkert samráð hafi verið haft við garðplöntuframleiðendur í þessum efnum, hvorki félag þeirra né Samband garðyrkjuframleiðenda, meðan á samningaviðræðum stóð né heldur voru þeir látnir vita sérstaklega af því þegar það nálgaðist að þessir samningar væru að fara í höfn.

Ég held að fordæma verði þá leynd sem hvílir yfir samningsgerð sem lýtur að atvinnuhagsmunum svo stórs hóps einstaklinga. Þá verður líka að gagnrýna að enginn aðlögunartími er veittur til að styrkja samkeppnisstöðu garðyrkjubænda og að ekki er heldur minnst neitt á aðgerðir til að tryggja samkeppnisstöðu þeirra.

Við ræddum fyrr í dag við hæstv. iðnaðarráðherra um ríkisstuðning til álframleiðslu. Það skiptir milljörðum króna sem sami dómstóll á vegum Evrópussambandsins, ESA-dómstóllinn, samþykkir að ríkið megi styrkja álframleiðslu hér á landi. Þegar kemur svo að garðplöntuframleiðslu, sem er undirstaða garðyrkju og skrúðgarðavinnu og svo mörgu í umhverfi okkar, verðum við að vera kaþólskari en páfinn og kippum rekstrargrundvellinum undan þessari grein.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég tel að garðplöntuframleiðsla sé einn af grundvallarþáttum íslensks atvinnulífs og íslensks umhverfis og um hana eigi að standa vörð, hæstv. landbúnaðarráðherra.