136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:30]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um nauðsyn þess að tryggja að réttindi starfsfólks verði varin, m.a. um laun í uppsagnarfresti. Ég á reyndar ekki von á að atbeina ríkisins þurfi þar til vegna þess að ég tel að SPRON muni eiga fyrir slíkum forgangskröfum. Að sjálfsögðu mun ekki standa á mér að veita þar stuðning ef atbeina ríkisvaldsins þarf til.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um möguleikana á því að færa innlán SPRON til annarra sparisjóða þá reyndist það ekki raunhæf hugmynd, m.a. vegna þess hve mikil upphæðin var. Það hefði einfaldlega ekki verið hægt með góðu móti að koma þessu inn í annan sparisjóð stærðarinnar vegna. Auk þess hefði í reynd ekki annar sparisjóður en Byr komið til greina í ljósi þess að viðskiptavinirnir eru flestir á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef rætt við forsvarsmenn sparisjóðanna, bæði einstakra sparisjóða og sparisjóðasambandsins og reyndar einnig Sparisjóðabankans, um framtíðarsýn fyrir sparisjóðakerfið. Ég held að óhætt sé að fullyrða að skoðanir mínar og þeirra fara að miklu leyti saman og reyndar hafa ýmsir þingmenn hér í dag viðrað svipaðar skoðanir þannig að ég held að ekki sé mikill ágreiningur um það hvers konar sparisjóðakerfi við viljum sjá. Við viljum sjá staðbundna sparisjóði sem sérstaklega þjóna hinum dreifðu byggðarlögum vel, við viljum auðvitað líka hafa a.m.k. einn öflugan sparisjóð á höfuðborgarsvæðinu og við viljum að þessar stofnanir þjóni sérstaklega einstaklingum og smærri fyrirtækjum, séu kannski dálítið íhaldssamar eins og sparisjóðir eiga að vera, séu ekki einhvers konar fjárfestingarbankar svo dæmi séu tekin. Ég held að við munum reyna að standa vörð um stofnfjárkerfið. Það er hægt að draga þá ályktun af því sem gerst hefur undanfarin missiri að hlutafélagavæðing sparisjóðanna var mjög misráðin, þannig að við hljótum að reyna að standa vörð með einhverjum hætti um stofnfjárhugmyndina þótt e.t.v. þurfi að gera einhverjar breytingar á henni til að sparisjóðirnir geti með greiðari hætti aflað sér nýs eigin fjár þegar þess þarf.

Ég legg áherslu á að við stöndum vörð um sparisjóðaformið, litlar fjármálastofnanir sem eru í eigu heimamanna og þjóna fyrst og fremst heimamönnum og gerum það sem þarf til að búa þeim til þá umgjörð sem þarf til að þeir geti starfað undir þeim formerkjum.