138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

uppbygging fiskeldis.

216. mál
[12:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Svo að ég víki áfram að þorskeldinu þá er það svo að það hefur gengið þokkalega með áframeldi á smáþorski sem hefur verið veiddur. Hversu mikil framtíð er í slíku þorskeldi skal aftur látið ósagt en engu að síður hafa menn náð þarna að fá, án þess að greiða sérstaklega fyrir, þessa 500 tonna heimild í kvóta. Það má velta því fyrir sér hvort eðlilegt hefði verið að það væri í staðinn fjárframlag því að þetta er í rauninni fjárstuðningur sem verið er að leggja til með þessum hætti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að útgerðarfyrirtækin hafa verið leiðandi í þessari vinnu og hafa þá líka fengið aðgang að þessum heimildum sem hafa haldist þarna áfram.

Ég tek undir að það er alveg sjálfsagt að halda áfram þróunarstarfi varðandi þorskeldið en við skulum samt ekki vera að fara fram úr okkur í þeim efnum. Við fylgjumst með þeim árangri sem aðrar þjóðir eru að ná og þeim vandamálum sem þær rekast á. Við erum í nánu samstarfi með Norðmönnum í þeirra þróunarstarfi og munum fylgjast með því.

Það er hárrétt. Það eru líka fleiri tegundir sem eru inni í myndinni: Lúðan, sandhverfan eru tegundir sem hafa verið og eru í eldi hér á landi og eru lúðuseiði flutt út. Við breytta gengisstöðu styrkist samkeppnisstaðan hér hvað það varðar að ala fleiri fisktegundir. Ég tek mjög vel brýningu hv. þingmanns og veit að við stöndum saman í fiskeldinu en kvótakerfið er allt annað mál (Forseti hringir.) og kemur þessu að öðru leyti ekkert við.