138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.

422. mál
[13:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spyr:

„Hyggst ráðherra, og þá hvernig, bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem skapast hefur vegna slæms ástands Gilsfjarðar- og Kollafjarðarlínu, þeirrar sauðfjárvarnalínu sem þar liggur um?“

Almennt má segja að á undanförnum áratugum hafi ekki fengist nægilegt fjármagn til viðhalds á varnarlínum svo að þær teldust vera fullnægjandi. Því fjármagni sem fengist hefur á hverjum tíma hefur jafnan þurft að forgangsraða og miða þá við ástand hverrar girðingar fyrir sig og mikilvægi hennar. Liður í þessari forgangsröðun var endurskoðun á öllum varnarlínum sem hófst með vinnu stjórnskipaðrar nefndar árið 2005 og lauk með útgáfu auglýsingar nr. 793/2009 um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma. Með auglýsingunni voru lagðar niður nokkrar varnarlínur sem voru taldar orðnar óþarfar vegna sambærilegrar sjúkdómsstöðu beggja vegna. Með þessu er ætlað að nýta betur þá takmörkuðu fjármuni sem á hverju ári fást í þetta verkefni.

Á árinu 2008 óskaði Matvælastofnun vegna fjárlagagerðar 2009 sérstaklega eftir auknu fjármagni til viðhalds varnarlína. Óskað var eftir tímabundinni fjárheimild allt að 25 millj. kr. til sérstaks átaks til nýgirðinga á verst stöddu varnarlínunum en þetta fjármagn náðist ekki að fá fram á fjárlögum.

Varðandi Gilsfjarðarlínu liggur fyrir að hér er um eina af mikilvægustu varnarlínum landsins að ræða þar sem hún liggur úr Gilsfjarðarbotni um Snartartungu og í Bitrufjörð. Norðan hennar eru mjög mikilvæg líflambasvæði á Vestfjörðum, eins og hv. þingmaður kom inn á. Árið 2007 var varið alls 1.952.887 kr. í þessa girðingu og 2.973.000 árið 2008. Árið 2009 var varið alls 1.241.980 kr. í þessa girðingu og þar af var nýgirðing girt fyrir um 600.000 kr. Þessi girðing hefur því fengið á hverju ári ríflegan hluta af því heildarfjármagni sem til ráðstöfunar hefur verið á hverjum tíma til þessara sauðfjárveikivarnagirðinga enda er það í samræmi við mikilvægi girðingarinnar. Almennt er þessi girðing talin í góðu ástandi. Þó er vitað, eins og hv. þingmaður kom inn á, að 13 kindur fóru yfir hana árið 2009. Þeim var lógað og þær bættar eigendum sínum sem línubrjótar.

Talið er að talsvert álag sé á girðingunni af völdum fjár sem er sunnan við hana og það hafi komist í gegnum hana á ákveðnum stöðum. Á þessu ári verður kappkostað að gera þessa girðingu fjárhelda eins og kostur er miðað við það takmarkaða fjármagn sem til ráðstöfunar er, eins og þegar hefur verið vikið að, en fjármunir til viðhalds á varnarlínum hafa því miður verið skornir niður eins og aðrir fjárlagaliðir í þeim niðurskurði sem ríkissjóður og ríkisstofnanir standa nú frammi fyrir. Einnig er sett hagræðingar- og niðurskurðarkrafa á Matvælastofnun, sem hefur yfirumsjón með þessu, eins og á aðrar stofnanir.

Varðandi Kollafjarðarlínu er það að segja að mikilvægi hennar er ekki eins mikið og Gilsfjarðarlínu. Hún liggur úr Kollafirði á Barðaströnd og í Ísafjarðarbotn. Henni er haldið við af öryggisástæðum til að aðskilja hið mikilvæga líflambasölusvæði austan hennar frá svæðinu vestan við girðinguna þar sem riðuveiki var fyrir meira en 20 árum. Girðingunni hefur verið haldið vel við á undanförnum árum frá sjó báðum megin og upp á háfjallið, eða þar sem mest álag er talið vera á henni. Á sjálfu háfjallinu mun ástand hennar vera öllu lakara en mikill kostnaður mun vera fólginn í að standsetja girðinguna þar. Samkvæmt áhættumati Matvælastofnunar og þeirri forgangsröðun sem stofnunin verður að beita við viðhald girðinga almennt er ekki fyrirhugað að leggja nema svipaða fjármuni í þessa girðingu og verið hefur á undanförnum árum en á árinu 2007 voru lagðar 683.800 kr. til viðhalds Kollafjarðarlínu, 798.000 árið 2008 og árið 2009 voru það 580.000 kr.

Ég tek alveg undir með hv. þingmanni um hversu mikilvægt það er að halda þeim girðingum vel við sem gegna því hlutverki að vernda þessi mikilvægu líflambasölusvæði á Vestfjörðum. Þau hafa svo sannarlega komið öðrum landshlutum til góða þegar grípa hefur þurft til þess að skera niður fé og flytja síðan nýtt ósýkt fé aftur inn á svæðið. Mikilvægi þessa svæðis og þessara girðinga er því gríðarlegt einmitt hvað þetta varðar, eins og hv. þingmaður vék að.