138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

heildarkostnaður ríkissjóðs af breytingum á heitum ráðuneyta.

551. mál
[13:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli að við fylgjumst vel með framkvæmdarvaldinu og hvað meiri hlutinn er að gera hér á þingi. Ég verð að viðurkenna að ég er einn af þeim sem hef verið örlítið hugsi yfir því hve mikið er verið að hringla með nöfn á ráðuneytum á Íslandi. Fyrirspurn mín beinist einungis að agnarlitlum hluta af þessu, þ.e. hvað kostar að skipta um nafn á ráðuneyti. Ég þekki það aðeins, af því ég var í ráðuneyti sem skipti var um nafn á, það er kostnaður sem hægt er að nota í ýmislegt annað. Þó að það séu ekki stórar upphæðir í samhengi fjárlaganna eru þetta samt sem áður peningar. Það hefur sérstaklega vakið athygli mína hvað núverandi ríkisstjórn hefur verið dugleg við að breyta nöfnum á ráðuneytum og ætlar að vera duglegri við að gera það ef ég skil stjórnarsáttmálann rétt.

Ég er hér með spurningar sem hljóða svo, með leyfi virðulegs forseta:

Hver var heildarkostnaður ríkissjóðs af eftirtöldum breytingum á heitum ráðuneyta, samanber reglugerð nr. 101/2009 um breytingu á reglugerð nr. 177/2007 um Stjórnarráð Íslands og hvernig sundurliðast hann eftir ráðuneytum:

a. dómsmála- og mannréttindaráðuneyti í stað dóms- og kirkjumálaráðuneytis,

— Það er athyglisvert þetta með dóms- og mannréttindaráðuneyti, það held ég sé mjög séríslenskt. Ef eitthvað er að marka Google eru mannréttindaráðuneyti í það minnsta í einu öðru landi, þ.e. Lesótó, svo er erfiðara að átta sig á því hvort það er í Erítreu og Simbabve, en í það minnsta er til mannréttindaráðuneyti í Lesótó.

b. mennta- og menningarmálaráðuneyti í stað menntamálaráðuneytis,

c. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í stað samgönguráðuneytis,

d. efnahags- og viðskiptaráðuneyti í stað viðskiptaráðuneytis?

— Þetta er líka áhugavert vegna þess að síðan á eftir að breyta nöfnunum aftur.

Ég vek athygli á því að þetta er bara brot af kostnaðinum því að hér eiga að koma — ef ég skil rétt, virðulegur forseti, kannski er ég að gleyma einhverju — innanríkisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti og síðan velferðarráðuneyti. Inni í innanríkisráðuneytinu eiga að vera einhver af þeim ráðuneytum sem voru að skipta um nöfn núna. Þannig á dómsmála- og mannréttindaráðuneyti í það minnsta að skipta um nafn og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti væntanlega líka, en kannski óvissara með mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Það væri ágætt að fá svör hæstv. ráðherra við þessum spurningum.