139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[18:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekkert slíkt vakir fyrir okkur. Það eru engin undirmál í þessu, engin undirmál. Við viljum að sjálfsögðu að þessu fyrirtæki vegni vel. Hvers vegna viljum við það? Vegna þess að við viljum að íslenskum internetnotendum vegni vel. Ég er viðskiptavinur þessa fyrirtækis. Ég borga fyrir lénið .is og það gerir eflaust þingmaðurinn líka og margir aðrir, bæði í þessum sal og í þjóðfélaginu. Við viljum hafa þessi mál í góðu lagi og á því hafa forsvarsmenn fyrirtækisins fullan skilning að sjálfsögðu.

Við viljum líka hlusta á þeirra rök, þau rök sem þeir tefla fram um að við búum ekki til regluverk sem er óþarflega íþyngjandi en þó þannig að það tryggi það öryggi sem að er stefnt. Þetta er markmiðið. Síðan má deila um hversu langur þessi úthlutunartími eigi að vera. Það er alveg rétt, þetta er umdeilanlegt, en þetta er niðurstaðan sem við komumst að. Síðan má skoða ársreikninga þessa fyrirtækis og sambærilegra fyrirtækja erlendis til að átta sig á hver stofnkostnaðurinn er, raunverulegur stofnkostnaður, og meta úthlutunartímann með hliðsjón af því. Við viljum einfaldlega komast að sanngjarnri lausn til að tryggja íslenskum internetnotendum gott umhverfi, öruggt umhverfi, og þessu fyrirtæki eðlilegan rekstrargrundvöll. Það er þetta og einvörðungu þetta sem fyrir okkur vakir.