144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

sameining framhaldsskóla.

[13:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að við ræddum strax vorið 2014 á fundi ráðuneytisins og skólameistara hvaða leið við hefðum mögulega til að ná því markmiði sem ég lýsti áðan. Við ræddum það líka haustið 2014 og vorið 2015 og skoðuðum meðal annars hvernig við getum horft á ákveðna landshluta og tryggt námsframboðið sem við höfum í hverjum landshluta, ef við horfum á þá skóla sem þar eru starfandi, hvernig við getum samþætt það þannig að við getum horft á landshluta sem heild og tryggt að krakkarnir sem þar búa hafi sem mest og best aðgengi að þessum skólum. Það er það sem hv. þingmaður er að vísa til og það er það sem allar þessar hugsanir ganga út frá. (KLM: …skólana.)

Það sem ég sagði áðan, (Gripið fram í.)virðulegi forseti, var að það stendur ekki til og hefur engin ákvörðun verið tekin um að sameina stofnanir sem hér um ræðir. Það hefur engin slík ákvörðun verið tekin. Það sem við erum að horfa á aftur á móti og er óumflýjanlegt verkefni, og þá er ég að hugsa einmitt um nemendurna í kjördæmi hv. þingmanns, er að það er verið að reyna að finna leiðir til að tryggja að krakkarnir á þessu svæði hafi sem mest (Forseti hringir.) úrval og námsval og að gæði þess starfs sem þau eiga rétt á að fá að njóta séu sem mest. (KLM: Þau hafa það nú þegar.)

Virðulegi forseti. Hér er kallað að þau hafi það. Það þarf að horfa til ýmissa þátta. Ég hef sagt það áður (Forseti hringir.) en af því að hv. þingmaður kallar sérstaklega eftir því skal ég segja aftur að svarið er: Nei, það er ekki búið að taka neina ákvörðun um neina sameiningu á neinum skólum. Það sem ég er að segja (Forseti hringir.) er þetta og það er alveg skýrt: Það verður að tryggja að skólastarfið á þessu svæði sem og annars staðar standi undir þeim kröfum að krakkarnir hafi þessi tækifæri.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)