144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Gjörðum hæstv. menntamálaráðherra á undanförnum vikum þar sem hann hefur lítið sem ekkert sést hér í þinginu hefur verið líkt við myrkraverk. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég ætla að taka undir þær lýsingar. Við erum með lögfræðiálit sem hv. þm. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar fór stuttlega yfir áðan þar sem beinlínis segir að í lögskýringargögnum með lögum um framhaldsskóla sé gert ráð fyrir að framhaldsskóli verði aðeins lagður niður með samþykki Alþingis. Hann segir líka að líta megi svo á að ráðagerðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins um breytingar á starfsemi Iðnskólans í Hafnarfirði jafngildi niðurlagningu skólans og að slík ákvörðun sé háð endanlegri afgreiðslu Alþingis og fjárveitingum til skólans.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að nú er kominn tími til að þetta þing fari að grípa í taumana á þessari ríkisstjórn. Menn ganga hér um allar koppagrundir eins og þeir þurfi ekki að spyrja löggjafann að einu eða neinu, (Forseti hringir.) breyta menntastefnu þjóðarinnar, taka ákvarðanir um að gera ekkert í deilum (Forseti hringir.) á vinnumarkaði, hætta viðræðum við Evrópusambandið o.s.frv. (Forseti hringir.) Það er komið nóg, virðulegi forseti. Það þarf að kalla þessa menn hingað og þeir þurfa að fara að svara fyrir gjörðir sínar.