144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:52]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Frú forseti. Nú er ég kominn að í þessari umræðu um rammaáætlun og breytingartillögur. Ég gaf hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur eftir fyrra skiptið sem ég átti að vera hérna.

Sú umræða sem hefur átt sér stað hér undanfarna daga hefur verið afskaplega fróðleg og gagnleg fyrir mann eins og mig sem hef ekki allt of mikið vit á rammaáætlun. Ég man eftir því þegar ég var í bæjarstjórn Grindavíkur, þá fengum við þetta og áttum að lesa það og eftir nokkrar blaðsíður bara fraus á mér heilinn vegna þess að þetta er mjög flókið og mikilvægt mál. Eins og ég sagði áðan þá finnst mér margar ræður hérna hafa verið mjög góðar og innihaldsríkar. Fyrrverandi hæstv. ráðherrar og núverandi þingmenn hafa skýrt út fyrir okkur nýju þingmönnunum hvernig þetta hefur gengið og hvernig þetta gekk fyrir sig á síðasta kjörtímabili. Sitt sýnist hverjum í þessu. Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst þetta eiginlega ótrúlegt í ljósi þess að hér varð hrun, eins og oft hefur komið fram, fyrir sjö árum. Mér finnst eins og við séum að fara aftur í sömu átt þar sem afleiðingin varð hrun.

Það var skrifuð rannsóknarskýrsla sem hét Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir sem var mjög vandað og gott rit þar sem okkur var leiðbeint hvernig við gætum gert hlutina betur. Þetta var rándýr skýrsla og margir hafa nú kvartað yfir því. Ég er alveg tilbúinn að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa kvartað yfir því að þetta sé allt of dýrt — auðvitað er þetta dýrt ef við förum ekki eftir þessu. Mér finnst lykilatriði þegar er verið að gera svona skýrslur og leggja peninga í þær úr ríkissjóði að við ræðum um þær og reynum að læra af þeim.

Hvernig getum við byggt upp gott samfélag? Í þau 53 ár sem ég hef lifað hefur þetta blessaða samfélag alltaf logað í einhverjum illdeilum. Við erum endalaust í illdeilum.

Hæstv. forseti. Í þessu máli reynir á svo miklu meira og fleira en virkjanir, orkunýtingu, umhverfismál og náttúruvernd þó að þau mál séu að sjálfsögðu gríðarlega mikilvæg með margvíslegum hætti fyrir lífsgæði og lífskjör allra núlifandi Íslendinga og einnig kynslóða sem munu búa í landinu í framtíðinni. Það er augljóst að í þessum málum þurfum við að vanda okkur alveg sérstaklega vel því að það sem við gerum nú hefur mikil áhrif á alla í þessu landi nú og um ókomna tíð og áhrifin eru mjög oft óafturkræf.

Að mínu viti eiga stjórnmál að snúast um að bæta lífsgæði fólks sem í landinu býr af mikilli ábyrgð gagnvart þeim sem munu landið erfa. Lífsgæði felast meðal annars og ekki síst í því að búa í samfélagi sem setur sér góðar og fyrirsjáanlegar leikreglur um hvernig ákvarðanir, er varða mikla hagsmuni alls fólks, eru undirbúnar og teknar og að þær leikreglur séu virtar. Þetta snýst ekki síst um sátt og traust, eins og hefur oft komið fram í þessari umræðu hjá mörgum hv. þingmönnum, samfélagssáttina svonefndu sem er svo eftirsóknarverð en er auðvelt að spilla og jafnvel glata með valdhroka og frekju og vanvirðingu gagnvart öðru fólki, hagsmunum þess og skoðunum.

Það vita allir að það er miklu auðveldara að sætta sig við niðurstöðu í máli, sem maður er ekki sammála og jafnvel fullkomlega ósammála, ef maður veit að hún hefur verið vel undirbúin og tekin á grundvelli vandaðra leikreglna sem verður farið eftir í góðri trú. Virðing hefur verið við leikreglur sem hafa tryggt að öll sjónarmið og allar upplýsingar sem máli geta skipt eru uppi á borðinu og faglega hefur verið staðið að því að meta gildi og mikilvægi þeirra og leita jafnvægis milli mikilvægra hagsmuna sem kunna að vegast á.

Eins og ég sagði er sem víðtækust sátt í samfélaginu afar eftirsóknarverð því að hún eykur lífsgæði fólks og stuðlar auk þess að trausti og greiðari viðskiptum og þar með meiri efnahagslegri velmegun. Rannsóknir fræðimanna og alþjóðlegra fjármálastofnana, svo sem Alþjóðabankans, staðfesta þetta svo að ekki verður um villst. Góðar, skýrar leikreglur sem tryggja vandaða málsmeðferð og gagnsæi og faglegt mat á hagsmunum sem vegast á eru alltaf mikilvægar, en þó alveg sérstaklega þegar um er að ræða hagsmuni sem þjóðin hefur sterkar skoðanir á og fara ekki saman að öllu leyti eins og á við í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ef stjórnvöld vanda ekki til verka við slíkar kringumstæður er mikil hætta á að stjórnvöld skipti þjóðinni í andstæðar fylkingar og rjúfi frið milli fólks. Það getur leitt af sér djúpstætt vantraust og haft langvarandi og mjög skaðleg áhrif á lífsgæði fólks, stjórnmál og efnahagslíf. Það hafa dæmin sýnt og sannað. En þetta er sérstaklega vont í litlu landi eins og hjá okkur, hjá fámennri þjóð. Við Íslendingar höfum því miður alls ekki verið nógu góðir í að nálgast deilumál okkar og leysa þau með vönduðum aðferðum, þ.e. skýrum og fyrirsjáanlegum leikreglum sem tryggja vandað hagsmunamat, eins og ég hef sagt, og virðingu fyrir andstæðum skoðunum.

Ágreiningur um virkjanir, orkunýtingu, umhverfismál og náttúruvernd er skólabókardæmi um mál þar sem afar mikilvægt er að vanda sérstaklega undirbúning og ákvarðanir og leita allra leiða til að sætta andstæð sjónarmið, ekki aðeins vegna þeirra sem búa nú í þessu landi heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Það er náttúrlega lykilatriði.

Það er því afar jákvætt og var jákvætt og mikilvægt og mikið framfaraskref í íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu þegar lög um rammaáætlun voru samþykkt. Þá náðist eftir mjög mikla vinnu mjög margra að skapa grundvöll og verkfæri sem víðtæk sátt var um til að ræða og undirbúa og taka ákvarðanir um mál sem varða svo miklu hagsmuni og mjög sterkar tilfinningar hjá þjóðinni allri, enda er markmið rammaáætlunar að leggja mat á og flokka virkjunarkosti. Með rammaáætlun er lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Með því að fara fram hjá ákvæðum laga um rammaáætlun, eins og meiri hluti atvinnuveganefndar virðist vera að gera samkvæmt því sem fram hefur komið hér hjá hv. þingmönnum, og grafa þannig undan þeim vönduðu aðferðum við undirbúning og töku ákvarðana sem þau lög tryggja og þeirri sátt í samfélaginu sem þau stuðla að þá er ekki aðeins tekin mikil heldur algjörlega óþörf áhætta sem gæti orðið til þess að við tækjum óvandaðar og ekki nægilega ígrundaðar ákvarðanir varðandi virkjanir og náttúruvernd, sem við getum aftur á móti gert ef við förum að ákvæðum laganna og gerum það í góðri trú og af alvöru og heiðarleika. Verði farið fram af slíku virðingarleysi og offorsi, eins og virðist eiga að gera, verður þessari merkilegu og mikilvægu tilraun til að vanda og bæta stjórnmál og stjórnsýsluhætti hér á landi kastað á glæ. Þannig slíta menn í sundur lögin og þannig slíta menn í sundur friðinn. Hvaða vit er í því? Hvaða glóra er að gera það, hæstv. forseti?

Þeir bera mikla ábyrgð sem vilja fara svo illa með þá merkilegu og mikilvægu tilraun sem í rammaáætlun felst, að tryggja sem hlutlægast mat á hagsmunum sem vegast á, vandaða, gegnsæja málsmeðferð við undirbúning og ákvarðanir, víðtækt samráð og virðingu fyrir margvíslegum sjónarmiðum og síðast en ekki síst meiri sátt í samfélaginu til skamms og langs tíma. Þetta er gríðarlega stórt mál. Það er ekki eins og við séum að ákveða að fara að byggja sjoppu við Þjórsárbrú, þetta eru þrjár, jafnvel fjórar virkjanir sem við erum að ræða um.

Með þeirri háttsemi sem mér finnst meiri hluti atvinnuveganefndar hafa sýnt er stigið stórt skref aftur á bak hvað varðar betri stjórnmál og stjórnsýslu í þessu landi, afturhvarf til mjög vondra stjórnarhátta. Það er óásættanlegt og í rauninni óþolandi. Það er ekki ofsagt að ef þetta verður samþykkt þá verður mjög svartur dagur í íslenskum stjórnmálum. Ég veit að þetta eru stór orð. Ég er samt ekki að ásaka þá sem skipa meiri hluta í atvinnuveganefnd. Þetta eru menn sem eru að vinna vinnuna sína og eru á öndverðum meiði við okkur. En það sem ég var að segja hér áðan er að þeir brjóta í bága við þá sátt sem við vorum að reyna að ná í þessum málum. Því miður virðist það hafa verið gegnumgangandi og gegnumsneitt í störfum ríkisstjórnarinnar að eyðileggja og kasta á glæ allri þeirri góðu vinnu sem var unnin á síðasta kjörtímabili.

Rammaáætlun hefur verið í ferli í um 16 ár, ef mig misminnir ekki. Mér finnst þetta sorglegt. Þetta þarf ekkert að vera svona. Þegar þessi tillaga var lögð fram varð allt vitlaust. Þeir hv. þingmenn sem lögðu hana fram máttu alveg gera sér grein fyrir því að það yrði tekist á. Mér finnst þetta óforsvaranlegt. Þeir hafa sakað okkur í minni hlutanum um málþóf og leiðindi, en það er algjörlega í boði þeirra. Stjórnarmeirihlutinn á þetta ástand sem ríkir núna alveg skuldlaust. Menn hafa talað um ástandið í þjóðfélaginu í ræðustól og það er ekki á bætandi að við séum að rífast um þetta. Fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði fram tillögu um Hvammsvirkjun, sem var búin að fara í gegnum ferli hjá verkefnisstjórn. Það ríkti náttúrlega töluvert mikil sátt um það lögformlega ferli. Við hefðum ekki sett okkur upp á móti því, þingmenn Bjartrar framtíðar. Málið hefði farið sinn vanagang inni í þingið af því að það fór í lögformlegt ferli. Við vorum mjög á móti skuldaleiðréttingunni, en vorum við nokkuð að tefja hér mál dögum saman út af henni? Nei, það var mál sem ríkisstjórnin lagði fram og var hennar baráttumál og kosningamál. Við fórum aldrei upp í ræðustól undir dagskrárliðnum um fundarstjórn í því máli. Við fórum hins vegar upp og ræddum um fundarstjórn forseta og töfðum málið þegar hin forkastanlega tillaga utanríkisráðherra um slit aðildarviðræðna um ESB-samninginn var lögð fram, sem er náttúrlega eitthvert ótrúlegasta svik á loforði sem um getur í Íslandssögunni, svei mér þá. Þá var spyrnt við fótum.

Við eigum líka að hlusta á þjóðina. Við getum ekki alltaf sagt í hátíðarræðum að við hlustum á þjóðina og boðum betri stjórnmál, beint lýðræði, en meinum svo ekkert með því. Það er ótrúlega ljótt.

Ég hef komið upp í andsvörum og um fundarstjórn forseta í þessu máli og talað um bréf sem við þingmenn í Suðurkjördæmi fengum sent. Ég veit ekki hvort allir þingmenn fengu það. Bréfið er frá einu veiðifélagi og 38 bændum sem búa við bakka Þjórsár. Mér finnst þetta mikilvægasta plaggið í þessari umræðu, herra forseti — burt séð frá rammaáætlun og verkefnisstjórn er þetta mikilvægasta plaggið. Þetta er fólkið sem býr á staðnum. Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr þessu bréfi, með leyfi forseta:

„Verði af framkvæmdum myndast þrjú uppistöðulón í farvegi Þjórsár. Þau skerða blómlegar sveitir beggja vegna árinnar þar sem nú er stundaður arðsamur landbúnaður. Um er að ræða stór stöðuvötn sem drekkja munu gróðri og jarðvegi þar sem þau leggjast upp á bakka árinnar. Tún og beitarland mun hverfa undir vatn og malarhauga. Til dæmis er áætlað að úr neðsta lónstæðinu þurfi að fjarlægja 1,5 milljónir rúmmetra efnis svo hægt sé að virkja Urriðafoss. Þessu efni verði komið fyrir á milli sveitabæja við ána. Á rekstrartíma virkjananna mun með vissu millibili þurfa að dæla botnfalli, m.a. jökulleir, úr lónunum ofan stíflnanna því að framburður sem áin ber með sér ofan af hálendinu mun falla þar til botns. Magnið af þessu rokgjarna efni sem dælt verður inn á lönd bújarða við ána skiptir milljónum rúmmetra. Lónin verða öll á upptakasvæði stórra jarðskjálfta þar sem landið er víða mjög sprungið eftir jarðhræringar fyrri alda.“

Mér finnst þetta bara háalvarlegt mál, herra forseti. Það hefur verið rætt í þessum ræðustól um hreppaflutninga og það er nú verið að flæma fólk burt af jörðum sínum. Það kemur fram í þessu bréfi að í yfir þúsund ár hafa bændur búið á þessum kostamiklu jörðum sem þarna eru. Ég las í DV fyrir rúmu ári síðan þegar talað var við bændur við Þjórsá og þeir sögðu að stríðið um Hvammsvirkjun væri rétt að byrja. Verði þetta samþykkt, Hvammsvirkjun, ef við tökum bara hana sem dæmi, þá munu bændur og ábúendur við Þjórsá fara í stríð við yfirvöld. Það er alveg ljóst. Viljum við það? Er það kannski það sem við viljum, vera í eilífu stríði innan lands, berast á banaspjótum, þessi þjóð, alla tíð, ein ríkasta þjóð heims? Það er ekki eins og við þurfum að drífa okkur að virkja. Það eru 18 þúsund gígavattstundir framleiddar í landinu, þar af þarf 13–14 þúsund í stóriðju. Samt vantar þriggja fasa rafmagn í mínu kjördæmi, í Skaftárhreppi, og það vita hv. þingmenn Suðurkjördæmis sem hér sitja. Eigum við ekki frekar að einbeita okkur að því að reyna að hjálpa þessu fólki að fá rafmagn og byggja upp atvinnu á þessu svæði? Það er tekið fram í bréfinu hvað er mikið framleitt af rafmagni hérna, það eru bara tæp þúsund megavött. Ef þessar virkjanir í neðri hluta Þjórsár bætast við þá verður upp undir 60% allrar raforkuframleiðslu vatnsorkuvera Landsvirkjunar á vatnasvæði og í árfarvegi Þjórsár.

Ég fór í ferð á síðasta ári í boði 4X4 klúbbsins upp á öræfi og á hálendið. Ég er ekki mikill útivistarmaður, ég viðurkenni það, en það var stórkostlegt og ógleymanlegt að fara á hálendið. Við enduðum ferðina á því að keyra meðfram Þjórsá. Það eru margar virkjanir, eins og þið vitið, þar fyrir ofan, Búrfellsvirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun o.fl. Þær eru um allt þarna. Mér finnst persónulega að við eigum að gefa þessu frí þarna, í þessum fallega dal, Þjórsárdalnum, og þeim sem búa þar. Tökum hagsmuni ábúenda fram yfir virkjanir. Hvert ætlið þið með rafmagnið? Þið ætlið með það út úr kjördæminu, þið ætlið með það upp í Hvalfjörð sem sjónvarpsmaðurinn góðkunni, Sölvi Tryggvason, kallaði Murmansk Skandinavíu — hann væri að breytast í víravirki og stóriðjuver.

Ætlum við að nota þetta rafmagn til þess að hjálpa garðyrkjubændum í Suðurkjördæmi, greiða niður hjá þeim rafmagnskostnaðinn sem hefur verið að sliga þá áratugum saman og alltaf hefur verið lofað að slá af og hjálpa? Nei. Og hvað segir fólkið í Suðurkjördæmi um það? Við höfum heyrt það í ferðum okkar um kjördæmið að fólk vilji fá rafmagnið til þess að byggja upp einhvern iðnað í héraði, en það stendur ekki til að fara með það þangað.

Við höfum skiptar skoðanir á þessu máli. Ég vil að náttúran og fólkið, sérstaklega á þessu svæði, njóti vafans. Við eigum að hlusta á það. Við getum ekkert ætt áfram endalaust. Af hverju máttu þessir þrír kostir ekki bara bíða þangað til verkefnisstjórn var búin að meta þá? Þá hefði verið hægt að leggja þetta fram, þá hefði það verið löglegt. Samkvæmt mínum heimildum verður það í byrjun næsta árs og jafnvel fyrr. Hv. þingmenn stjórnar vissu að hér mundi ríkja ömurlegt ástand ef þeir legðu þetta fram. Þetta er sorglegt.

Ég get alveg tekið undir með þingmönnum eins og hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, vini mínum úr Suðurkjördæmi, að það er ekki boðlegt að bjóða þjóðinni upp á þetta, ekki síst í því árferði sem nú ríkir hérna, sem er aftur á móti annar handleggur. Hvers vegna ríkir þetta ótrúlega ástand í samfélaginu? Virkjanir í Þjórsá munu ekki redda kjaramálum eða hækka laun hér á landi, eins og hæstv. forsætisráðherra hélt fram.

Sjávarútvegurinn stendur alveg gríðarlega vel, hefur skilað ótrúlegum hagnaði á síðustu árum. Ferðaþjónustan er að vaxa upp úr öllu valdi og skapar okkur mestar gjaldeyristekjur. Við sjáum tekjutölur frá versluninni upp á fleiri milljarða. Bankarnir, svo ég tali nú ekki um þá, græða stjarnfræðilegar upphæðir. Samt erum við núna í kjarabaráttu árið 2015 í þessu ríka landi. Það er skelfilegt ástand í samfélaginu. Við eigum að einbeita okkur að því, hæstv. forseti, að reyna að leysa það mál. Ég skora á hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar að draga breytingartillöguna til baka og leysa þetta mál. Þeir geta lagt aftur fram tillögu um hinar virkjanirnar, eða umhverfisráðherra, þegar verkefnisstjórn hefur lokið sínu ferli. Það er mjög erfitt, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að berjast á móti máli þegar maður veit að það hefur verið unnið eftir bestu getu og lögformlega.