144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Finnst mönnum ekki lágmark að flutningsmaður tillögunnar, formaður atvinnuveganefndar sé hér í salnum þegar verið er að ræða þetta mál? Það er bara algert stjórnleysi í gangi hérna. Það ríkir algert stjórnleysi í landinu. Í menntamálum er gengið þannig fram að menn ætla að umbylta menntakerfinu án þess að ræða það við kóng eða prest og fá síðan á sig lögfræðiálit um að það stangist á við lög. Hér mun skella á fjölmennasta verkfall Íslandssögunnar í næstu viku og enginn gerir neitt. Það er bara ekki rætt. Menn hafna tillögum um að taka þetta mál á dagskrá. Hvað gengur hér á? Þetta er ekki hægt.

Síðan kemur forseti ASÍ í fréttir í dag og segir okkur að á ferli sínum innan verkalýðshreyfingarinnar hafi hann aldrei upplifað jafn mikið vantraust á ríkisstjórn á eins og þeirri sem nú situr.