144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, og matið getur breyst hratt. Fyrir rúmum 40 árum, þegar ég fæddist, var ekki rafmagn á Snæfellsnesi þar sem ég fæddist. Pabbi minn var formaður rafvæðingarnefndar Snæfellsness. Ég er nú samt ekki eldri en ég er. Það er líka vert að hafa í huga að á þeim tíma höfðu fossar ekkert virði nema það sem hægt var að koma á þá með nýtingu, með raforku. Í dag skilar ferðaþjónustan gjaldeyristekjum sem eru meira en þrefaldar á við það sem stóriðjan skilar. Svona getur verðmætamatið breyst í grundvallaratriðum á innan við einum mannsaldri. (Forseti hringir.) Er ræðutíminn …

(Forseti (ValG): Það er eitthvað ekki alveg rétt þarna, en hv. þingmaður fær …)

Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í, og hún vék að í ræðu sinni, er breytingin sem orðið hefur á tillögunni. Hún nefndi að tillagan væri eiginlega óþekkjanleg frá því sem hún var í upphafi vega. Telur hún það ekki hafa áhrif á það hvort við megum yfir höfuð, og getum yfir höfuð, samþykkt svona grundvallarbreytingu á efni tillögunnar?