144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ljóð sem mér kemur í hug þegar ég hlusta á þessa umræðu og er viðstaddur hana, af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson óskaði eftir því, er kannski einna helst ljóðið Stormur eftir Þorstein frá Hamri, sem er svona, ef ég man rétt:

Þúngur stormur sem þræðir í skógi

þyrnóttan veg

kaldur stormur og kvikur af rógi

ástin mín, sofðu, ef eitthvað skeður

ég er hér vopnaður: mörg eru veður

og undarleg.

(Gripið fram í: Bravó.) Verði þér að góðu, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Lokaspurningin sem mig langar til að bera fram til hv. þingmanns er framhaldið, hvert förum við héðan? Hvað verður um rammaáætlun ef þetta verður að veruleika? Hvað gerir næsta stjórn? Segjum sem svo að það yrði stjórn sem ég og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ættum aðild að, (Gripið fram í.) yrði þá verndarflokkurinn fylltur af virkjunarhugmyndum þar sem menn bara leyfa sér það í krafti sinna skoðana (Forseti hringir.) að fylla upp á það sem út af stendur hjá verkefnisstjórninni og setja bara nógu mikið í verndarflokk?