144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Auðvitað er þetta málþóf. Það þarf enginn að fara í launkofa með það. Menn eru búnir að segja: Við höldum þessu áfram. Þannig að sjálfsögðu er þetta bara leikurinn sem alltaf er leikinn. Málþóf. Þetta er kerfislægt vandamál sem væri hægt að leysa með því að þjóðin fengi málskotsréttinn í sínar hendur. Nú er verið að vinna að því sem er frábært mál, stórkostlegt mál. Þá mun allt þetta rugl sem við stöndum frammi fyrir núna hætta á þingi og við getum farið að vinna eins og fólk og vinna að langtímastefnumótun eins og fólk. En staðan er núna þannig að það eru fjórar mínútur í að klukkan verði 12. Forseti lýsti því yfir af forsetastóli að þingfundur mundi ekki standa lengur en til 12. Ég trúi ekki öðru en að við tökum nokkra snúninga í viðbót, fjóra eða svo, eru þið ekki æst að kíkja hérna upp í fundarstjórn forseta? Eða forseti lýkur þessu kannski sem snöggvast.