144. löggjafarþing — 110. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:13]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég væri mjög hlynntur því sem hv. þingmaður var að lýsa. Ég held að það væri mjög til bóta og til þess fallið að menn væru tilneyddir til þess að semja sig að niðurstöðu. Það er auðvitað það aðhald sem stjórnarandstöðuna skortir einna helst. Það er mjög merkileg saga á bak við virkjunarhugmyndir þegar kemur að t.d. Þjórsánni sem teygir sig aftur til 1907. Ég hef sagt ferðamönnum þessa sögu oftar en ég get rifjað upp að það eru bændur á svæðinu sem fyrst eru með virkjunarréttinn, en hann hefur í þrígang verið í höndum útlendinga. Ég held að fáir geri sér grein fyrir því. Það er auðvitað mjög langur tími sem líður frá því að menn reikna út hvaða fallþunga er hægt að fá, einhvern tímann á 2. áratug síðustu aldar, og svo komast menn fljótlega að þeirri niðurstöðu að við Búrfell sé hægt að fá hvað mestan fallþunga á vatnið, það sé öflugasta virkjunin sem menn fái. Það er auðvitað búið að virkja þetta vatn sem við erum að tala um núna (Forseti hringir.) mjög oft. En okkur hefur reynst ákaflega erfitt, það er punkturinn í minni stuttu ræðu hér, (Forseti hringir.) að taka ákvarðanir í þeim efnum. Þar væru þjóðaratkvæðagreiðslur ákveðið verkfæri sem við ættum að nota.