149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Í ljósi þess hversu mikilvægt málið er, hvað það geti haft mikil áhrif á lífskjör fólks í landinu, á sveitarfélögin, á ríkissjóð, á fyrirtæki landsins, þá er ótrúlegt — já, ég tek undir það með hv. þingmanni — það er algerlega óskiljanlegt hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Og það er algerlega óskiljanlegt að menn skuli leitast við að beita aðferðum sem aldrei hefur verið beitt áður í sögu Alþingis, alla vega ekki í seinni tíð, líklega aldrei, til að reyna að þagga niður umræðu um málið eða fela umræður um miðjar nætur, jafnvel fram á morgun. Það finnst mér ekki bera vott um að menn hafi endilega alveg hreina samvisku gagnvart málinu. Mér finnst það sýna að menn treysti sér ekki til að verja það, rökstyðja það og vilji helst að sem fæstir nái að hlýða á umræðuna, umræðu sem þó hefur reynst alveg gríðarlega mikilvæg og gagnleg. Enda hefur hún hvað eftir annað leitt í ljós nýjar staðreyndir, grundvallarstaðreyndir, um málið sem ekki nóg með að ríkisstjórnin hafði ekki kynnt okkur, heldur hefur maður oft og tíðum á tilfinningunni að það sé beinlínis verið að fela óþægilegu staðreyndirnar. Það kemur heim og saman við þá undarlegu taktík, þessa nýlundu, að láta þingfund og umræðuna helst standa á þeim tímum þegar sem fæstir hafa tækifæri til að fylgjast með umræðunni. Það segir sannarlega sína sögu.