150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[12:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frumvarpið felur í sér löngu tímabærar breytingar og endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og margt gott er að finna í þessu máli. Þrátt fyrir þær jákvæðu breytingar er þetta fyrst og fremst mál sem tryggir hagsmuni þeirra sem greiða af námslánum en það gerir minna fyrir námsmenn eða fólk á meðan það er í námi. Með hliðsjón af því leggur fulltrúi Viðreisnar í allsherjar- og menntamálanefnd til breytingartillögur sem lúta beinlínis að kjörum stúdenta. Annars vegar þess efnis að framfærslan dugi raunverulega, sé ekki bara falleg orð á blaði eins og reyndin hefur verið töluvert lengi. Hins vegar að nemendur fái námsstyrki á meðan á námi stendur samhliða nauðsynlegum lánum. Það er alveg ljóst og við höfum margoft talað um það að við þær aðstæður sem við búum við núna þurfum við að horfa til framtíðar og við gerum það ekki nema líta til háskólamenntunar, líta til þess að búa vel að stúdentum og ná þannig að vinna okkur (Forseti hringir.) út úr þeirri stöðu sem við erum í.

Ég vona að þessar breytingartillögur hljóti brautargengi.