150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, um framlengingu hlutabótaleiðar. Nefndin hefur fengið á sinn fund fjölda gesta og í lokin fengum við fyrir nefndina Ríkisendurskoðun sem kynnti skýrslu sína um samtímaeftirlit og skoðun á hvernig hlutabótaleiðin, sú fyrri, hefði gengið og ábendingar um hvað betur mætti fara. Ánægjulegt var að það rímar mjög vel við þetta nýja frumvarp sem nú er verið að mælast til að verði afgreitt svo að það geti tekið gildi frá og með 1. júní þegar gildistími í fyrri lögum rennur út.

Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna þeirra efnahagslegu áfalla sem við þekkjum vegna Covid-19 og er lagt fram samhliða öðrum frumvörpum sem hafa verið hér til umræðu varðandi stuðning við launakostnað í uppsagnarfresti og frumvarp dómsmálaráðherra vegna heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja. Með frumvarpinu er verið að framlengja hlutabótaleiðina en með mjög hertum skilyrðum. Hlutabótaleiðin verður framlengd til 1. september 2020. Lagt er til að lágmarkshlutfall launamanns til nýtingar á úrræðinu verði óbreytt til 1. júní 2020, en verði síðan 50% í stað 25% á tímabilinu 1. júlí til og með 31. ágúst 2020.

Nefndin fjallaði um þá þætti sem hafa verið mikið í umræðunni eins og skil á CFC-skýrslu og ótakmarkaða skattskyldu. Meðal skilyrða fyrir nýtingu hlutabótaleiðarinnar samkvæmt frumvarpinu er að vinnuveitandi staðfesti að hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt tekjuskattslögum og að hann hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald í CFC-félagi. Við umfjöllun nefndarinnar kom til umræðu hvort framangreind skilyrði girtu nægilega vel fyrir að fyrirtæki sem notfæra sér svokölluð skattaskjól eða lágskattasvæði til að forðast skattgreiðslur, sem með réttu ættu að renna til íslenska ríkisins, geti nýtt sér þá aðstoð stjórnvalda sem frumvarpið mælir fyrir um. Með því að gera kröfu um skil á CFC-skýrslum er gert ráð fyrir því að vinnuveitandi hafi upplýst um eignarhald sitt og eftir atvikum sætt skattlagningu af hagnaði félags í beinni eða óbeinni eigu hans á lágskattasvæði.

Meðal breytingartillagna meiri hlutans er að bæta því við, í upptalningu á þeim gögnum sem vinnuveitandi þarf að hafa skilað til Skattsins, að hann hafi upplýst um raunverulega eigendur, samanber lög um skráningu raunverulegra eigenda. Meiri hlutinn bendir á að fyrirtæki sem nýta sér skattaskjól til þess að forðast skattgreiðslur, sem með réttu ættu að renna til íslenska ríkisins, gera það að sjálfsögðu í trássi við íslensk lög. Vinnuveitendur sem staðfesta að þeir hafi staðið skil á framangreindum gögnum ábyrgjast einnig að þær upplýsingar sem gerð er grein fyrir séu réttar. Eðli málsins samkvæmt verður ekki ráðin lausn á þeim vanda sem yfirvöld standa frammi fyrir í þeim efnum í málinu sem flutt er hér. Eigi að síður er ljóst að með því að nýta sér stuðningsúrræði stjórnvalda eru fyrirtæki útsett fyrir því eftirliti sem þeim úrræðum fylgir, og þeim viðurlögum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu, veiti þau vísvitandi rangar upplýsingar.

Í frumvarpinu er lagt til að skilyrði fyrir nýtingu hlutabótaleiðarinnar verði m.a. að vinnuveitandi skuldbindi sig til þess að greiða ekki eigendum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3 millj. kr. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að einhvers óskýrleika kynni að gæta varðandi inntak hugtaksins „mánaðarlaun“, sérstaklega í ljósi þess að viðmið um heildarlaun starfsmanns er sérstaklega skilgreint í ákvæðinu. Ekki er að finna skýringu á hugtakinu í greinargerð.

Meiri hlutinn tekur fram að hugtakið „mánaðarlaun“ ber að túlka til samræmis við önnur ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar sem skilgreina laun launamanns. Þannig verði til mánaðarlauna að teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

Fyrir nefndinni urðu líka umræður um stöðu sjálfstætt starfandi á eigin kennitölu. Þau sjónarmið komu fram að sjálfstætt starfandi einstaklingar sem starfa á eigin kennitölu gangi á rétt sinn til atvinnuleysisbóta umfram aðra hópa með því að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur á sama tíma og aðrir fá hlutabætur sem koma ekki til skerðingar á rétti til atvinnuleysisbóta.

Meiri hlutinn bendir á að forsenda fyrir greiðslu hlutabóta samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar er að ráðningarsamband sé til staðar milli launamanns og vinnuveitanda, þar sem vinnuveitandi greiði fyrir það vinnuframlag launamanns sem innt er af hendi og launamaður fái á móti greiðslu frá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna skerðingar á starfshlutfalli. Mótframlag vinnuveitanda getur myndað drjúgan hluta af mánaðargreiðslum til starfsmanns sem nýtir hlutabótaleiðina, en í tilviki þess sem starfar á eigin kennitölu er engum slíkum vinnuveitanda til að dreifa.

Í nefndarálitinu er ágætistafla sem sýnir mismun í tekjum þeirra sem fara á almennar atvinnuleysisbætur og þeirra sem fara í gegnum hlutabótaleiðina. Ég tel að þetta sé góð tafla sem sýnir fram á að ekki er mjög mikill munur í tekjum eftir því hvor leiðin er farin fyrr en tekjur viðkomandi í dag, áður en hann missir hluta af sinni vinnu eða vinnuna alla, eru komnar yfir 700.000 kr.

Eins og ég nefndi fyrr var mjög ánægjulegt að skýrsla Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina kom út áður en við fórum í 2. umr. um málið hér á Alþingi. Við umfjöllun um málið fengum við kynningu á skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutabótaleiðina. Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að eftirlit sé haft með nýtingu ríkisfjár og að staðinn sé vörður um hagsmuni ríkissjóðs og að útgreiðslur úr honum taki mið af vilja löggjafans. Með þeim skilyrðum sem lögð eru til í frumvarpinu og með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til er leitast við að tryggja að úrræðið nýtist best þeim sem á því þurfa að halda, þ.e. starfsmönnum fyrirtækja sem hafa þurft að draga saman starfsemi vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi eftirlits og þess að vinnuveitendur sem notfæra sér úrræðið séu upplýstir um ábyrgð sína og viðurlög við brotum. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins og Vinnumálastofnunar, m.a. í samstarfi við skattyfirvöld, að tryggja vel þessa þætti.

Þá ætla ég að fara aðeins yfir breytingartillögur meiri hlutans. Meiri hlutinn telur eðlilegt að í stað þess að breytingar verði gerðar á ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar verði hlutabótaleiðin, eins og lagt er til að hún verði í frumvarpi þessu, sett fram í nýju bráðabirgðaákvæði í lögunum. Það er til þess að auka skýrleika þessarar greinar enn frekar. Meiri hlutinn leggur því til að 1. gr. frumvarpsins falli brott og í stað hennar komi ný grein sem mæli fyrir um nýtt ákvæði til bráðabirgða í lögunum. Í því ákvæði verði mælt fyrir um hlutabótaleiðina, eins og hún gildir á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2020 og með þeim skilyrðum sem um hana gilda. Á sama tíma eru lagðar til efnislegar breytingar sem gerð verður nánari grein fyrir hér á eftir, sem og breytingar á framsetningu sem ætlað er að auka skýrleika laganna.

Það þarf að staðfesta áframhaldandi nýtingu hlutabótaleiðar. Fram kom að það þótti vera of skammur tími að miða við 1. júní svo að lagt er til að tíminn verði lengdur og að tilkynna þurfi það fyrir 30. júní 2020 til Vinnumálastofnunar. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að hyggist launamaður, sem nýtt hefur úrræði til greiðslu atvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII, á tímabilinu 15. mars til og með 31. maí 2020, nýta úrræðið samkvæmt hinni nýju hlutabótaleið skuli hann tilkynna Vinnumálastofnun um það fyrir 30. júní 2020.

Varðandi skilyrði um tímabundinn samdrátt í starfsemi vinnuveitanda stendur áfram að miðað er við að samdráttur hjá fyrirtæki þurfi að vera 25%. Það er eitt af þeim skilyrðum sem sett eru. Það verður viðmiðið í þessu frumvarpi.

Síðan ætla ég að fara yfir þann kafla í álitinu þar sem er rætt um skilyrði um skil á gögnum til Skattsins. Í 2. mgr. c-liðar 1. gr. frumvarpsins eru lögð til skilyrði er varða starfsemi vinnuveitanda. Þegar launamaður staðfestir hjá Vinnumálastofnun áframhaldandi nýtingu hlutabótaleiðarinnar, frá og með 1. júní 2020, eða launamaður sækir um úrræðið í fyrsta skipti skal vinnuveitandi staðfesta að hann uppfylli þar til greind skilyrði. Þar á meðal eru skilyrði um að vinnuveitandi beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, samanber 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, eftir því sem við á.

Nefndinni var bent á að með framangreindum skilyrðum væri gengið skemur en í öðrum úrræðum stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, þar sem m.a. væri gerð sú krafa að viðkomandi hefði upplýst um raunverulega eigendur, samanber lög um skráningu raunverulegra eigenda.

Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og bendir á að þótt Vinnumálastofnun sé falið eftirlit með framkvæmd ákvæðisins muni eftirlitið byggjast á gögnum sem ber að skila til Skattsins. Mörg þeirra skilyrða sem lögð eru til fyrir nýtingu úrræðisins verða ekki staðreynd fyrr en eftir á heldur verður við greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu byggt á því að vinnuveitandi staðfesti að viðkomandi skilyrði séu uppfyllt. Eftirlit með því hvort vinnuveitandi uppfylli skilyrðin í raun mun því að miklu leyti fara fram eftir á. Með hliðsjón af því verður að gera þá kröfu til vinnuveitanda að hann staðfesti að hann hafi staðið skil á öllum gögnum og upplýsingum sem honum ber lögum samkvæmt að hafa skilað til Skattsins á umsóknardegi, m.a. skuli hann hafa upplýst um raunverulega eigendur, samanber lög um skráningu raunverulegra eigenda.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á framangreindu skilyrði þess efnis að vinnuveitandi skuli staðfesta að hann hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þar með talið skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, samanber 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum til Skattsins sl. þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skuli hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, samanber lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, samanber lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

Allt þetta tel ég vera mjög mikilvægt í samhengi við þá umræðu sem er hér um fyrirtæki sem hugsanlega eru að brjóta íslensk lög með því að greiða ekki skatta til íslenska ríkisins ef þau eru á lágskattasvæðum. Þetta er allt til þess að reyna að girða fyrir það með bestum hætti.

Þá erum við komin að ýmsum skilyrðum er lúta að ráðstöfun vinnuveitanda. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að ákveðin vandkvæði væru bundin við orðalag ákvæðisins eins og það væri fram sett, varðandi 3 millj. kr. mánaðarlaun. Einnig væri íþyngjandi fyrir vinnuveitendur að geta ekki nýtt sér úrræðið hafi þeir tekið ákvörðun um úthlutun arðs, lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa eða kaup eigin hluta fyrir 1. júní 2020 en ráðstöfunin ekki komið til framkvæmda fyrr en eftir þann tíma.

Meiri hlutinn leggur því til breytingu á ákvæðinu þannig að skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins verði að vinnuveitandi hafi ekki eftir 1. júní 2020 ákvarðað úthlutun arðs, lækkun hlutafjár, kaup eigin hluta, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3 millj. kr. til hvers og eins.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á því tímabili sem skuldbinding vinnuveitanda gildir. Leggur meiri hlutinn til að vinnuveitandi skuldbindi sig til þess að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrir 1. janúar 2022 og til að ráðstafa ekki til hluthafa með arðgreiðslu, lækkun hlutafjár eða kaupum eigin hluta hagnaði sem myndast á rekstrarári sem hefst 1. janúar 2020 eða síðar, fyrr en í fyrsta lagi eftir 1. janúar 2023.

Til umræðu kom takmörkun á kaupum á eigin bréfum, hliðstætt því sem var rætt í efnahags- og viðskiptanefnd í því frumvarpi er varðar uppsagnarfrestinn. Í áliti nefndarinnar er bent á að atvik kunna að vera með þeim hætti að félag hafi í kaupréttarsamningi skuldbundið sig til að kaupa hluti starfsmanns við starfslok og að í slíku tilviki geti verið óeðlilegt að bann við kaupum á eigin hlutum girði fyrir efndir slíkra samninga. Í þeim tilvikum má gera ráð fyrir að slík ráðstöfun hafi verið gerð fyrir 1. júní 2020 enda hafi samningur um kaup hluta við starfslok verið gerður við það tímamark. Sú breyting sem lögð er til á framsetningu ákvæðisins hefur það í för með sér að fyrirtæki sem hafa skuldbundið sig með framangreindum hætti gagnvart starfsmanni geta staðið við áður gerða samninga.

Þá að eftirliti Vinnumálastofnunar. Nefndinni var bent á að sú framsetning á gildistíma ákvæðisins sem lögð er til í frumvarpinu hefði það í för með sér að heimildir Vinnumálastofnunar til eftirlits og til þess að beita þeim viðurlögum sem mælt er fyrir um falli einnig úr gildi frá og með 1. september 2020. Líkt og rakið er að framan er gert ráð fyrir því að eftirlit með því hvort viðkomandi vinnuveitendur uppfylli þau skilyrði sem lögð eru til muni að miklu leyti fara fram eftir að greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til launamanns hafa verið inntar af hendi.

Líkt og að framan greinir leggur meiri hlutinn til að hlutabótaleiðin verði framlengd með setningu nýs bráðabirgðaákvæðis. Breytingartillaga meiri hlutans gerir ráð fyrir því að sú afmörkun sem lögð er til á gildistíma ákvæðisins í frumvarpinu verði felld brott. Þess í stað verði skýrt afmarkað á hvaða tímabili heimilt sé að greiða atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins, þ.e. frá 1. júní til og með 31. ágúst 2020. Þá er sérstaklega tilgreint í þeim ákvæðum sem skulu samkvæmt frumvarpinu vera afturvirk að þau gildi einnig um atvinnuleysisbætur sem greiddar hafa verið á tímabilinu 15. mars til og með 30. júní 2020 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII í lögum um atvinnuleysistryggingar.

Hér er sett fram að birta eigi lista yfir vinnuveitendur sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina, að heimild sé til þess. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og framkvæmd Vinnumálastofnunar varðandi þá hlutabótaleið sem hefur verið í gangi. Stofnunin hefur nú þegar birt slíka lista en takmarkað hann við fyrirtæki sem nýta hlutabótaleiðina við sex eða fleiri launamenn. Nefndinni var bent á að birting á slíkum upplýsingum bryti ekki gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þar sem upplýsingar um lögaðila einar og sér teljast ekki vera persónuupplýsingar. Það væri mikilvægt að ráðstöfun á opinberum fjármunum væri sem mest gagnsæ og því væri eðlilegt að upplýst væri um þá aðila sem fengið hafa slíka greiðslur.

Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að eðlilegt og réttmætt sé að upplýsa um ráðstöfun á opinberum fjármunum til lögaðila með þeim hætti að birta lista yfir þá lögaðila sem hafi fengið slíkar greiðslur. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að gæta þurfi að því að birting lista yfir fyrirtæki með fáum launamönnum geti leitt til þess að hægur vandi verði að greina hvaða launamenn þeirra fyrirtækja kunni að hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu. Með slíkri upplýsingagjöf geti verið auðséð hvaða starfsmenn minni fyrirtækja séu á atvinnuleysisskrá. Meiri hlutinn leggur því til að miðað verði við þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið hjá Vinnumálastofnun og að heimilt verði að birta lista yfir fyrirtæki sem nýtt hafa úrræði ákvæðisins fyrir sex eða fleiri launamenn.

Jafnframt leggur meiri hlutinn til tæknilegar breytingar sem ekki þarfnast skýringar.

Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að málið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir álitið rita sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir framsögumaður og hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Eins og ég vísaði í fylgir hér breytingartillaga sem er að stærstum hluta gert grein fyrir í nefndarálitinu. Það er undirstrikað að breytingar eru gerðar um skil á skattframtali og fylgigögnum, skilyrðin sem hér koma fram eru til 1. janúar 2022, en arðgreiðslur miðast við rekstrarárin 2020 og 2021, þ.e. að ekki megi greiða arð fyrir þau rekstrarár fyrr en á árinu 2023. Skjalið liggur frammi og fylgir nefndarálitinu.

Ég vil í framhaldi af þessu segja að ég er mjög ánægð með það að með frumvarpinu er það skilyrt enn frekar hvernig fyrirtæki fara inn í þetta úrræði. Við þekkjum að því miður stukku allt of margir á lestina sem höfðu ekki þörf fyrir að fara inn í úrræðið, vel stöndug fyrirtæki. Þau hafa séð sóma sinn í því að skila þeim fjármunum sem viðkomandi launamönnum voru greiddir í nafni þess að vera að fara á hlutabótaleiðina. Nú stöndum við frammi fyrir næsta skrefi í glímunni við afleiðingar kórónufaraldursins og þá efnahagslegu erfiðleika sem við er að etja. Það eru fleiri úrræði í gangi. Sem betur fer hefur komið í ljós að um 15.000 manns hafa sagt sig af hlutabótaleiðinni vegna þess að létt hefur verið á ýmsum takmörkunum, eins og samkomubanni og öðru því um líku, og fyrirtæki hafa getað hafið eðlilega starfsemi. Margir sem fóru á hlutabótaleiðina eru komnir aftur til vinnu og eru á launum hjá sínum atvinnurekanda. Því miður eru mörg fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustunni, í gífurlega miklu tekjufalli og þau munu eflaust horfa til þess úrræðis sem er hjá efnahags- og viðskiptanefnd varðandi stuðning við greiðslu launa í uppsagnarfresti.

Á þessum tímamótum munu fyrirtæki, eðlilega, og launamenn, skoða hvort þau eigi heima í þessu úrræði núna þegar aðstæður eru samt að batna. Við verðum að nýta fjármuni ríkisins með sem skilvirkustum hætti til þeirra sem virkilega hafa þörf á því. Þess vegna á ekki að vera einfalt og auðvelt að fara inn á hlutabótaleiðina núna heldur þurfa menn að skoða það vel hvort þörf sé á að fá framlag frá ríkinu á móti 25% framlagi til að halda ráðningarsambandi.

Ég hvet alla þá aðila sem eru illa staddir rekstrarlega og vilja halda ráðningarsambandi við sitt launafólk, að launafólk þessara fyrirtækja sæki um og fyrirtækin uppfylli öll þau ströngu skilyrði sem sett eru og geri sér grein fyrir viðurlögum við brotum á þeim og geri sér grein fyrir að það er mikil alvara á bak við. Og þó að einhver fyrirtæki kæmust hugsanlega inn í þetta úrræði núna með sitt launafólk að hluta eða öllu leyti þá kemur það í ljós ef þau uppfylla ekki skilyrðin og eru alvarleg viðurlög við því. Þá gætu fyrirtæki lent í mjög slæmum málum. Þau hljóta því að skoða úrræðið með þeim gleraugum að það er ekki sjálfgefið að fara inn í það og fá stuðning ríkisins til að létta á launagreiðslum til að brúa ákveðið bil, ef þau gera það ekki með opnum, lýðræðislegum og heiðarlegum hætti og undirgangast þau skilyrði sem þarna koma fram.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra í bili og vonast til að frumvarpið fái góða afgreiðslu því að við þurfum að fá það samþykkt fyrir mánaðamót til þess að mæta næstu þremur mánuðum. Ég vil líka nefna að við settum inn í nefndarálitið ósk um að þetta yrði endurskoðað áður en þetta tímabil rennur út í ágúst og að ef einhver verður búinn að ganga á atvinnuleysisbótarétt sinn verði horft til þess að lengja það tímabil eins og gert var eftir hrunið. Þá var það lengt úr 30 mánuðum í fjögur ár. Ég hvet stjórnvöld til að skoða hvort þörf sé á því þegar þessu úrræði lýkur í lok ágúst.