150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði í sinni ræðu að það ætti ekki að vera einfalt og auðvelt að fara inn í þessa leið. En staðreyndin er hins vegar sú að það var mjög einfalt og auðvelt að fara þessa leið og þar má nefna stöndug fyrirtæki með traustan efnahag, fyrirtæki sem þurftu ekki á þessu að halda, sveitarfélög og opinbera aðilar. Ríkisendurskoðun segir það skýrt í sinni skýrslu að ef farið er yfir lögin og lögskýringargögnin þá áttu þessir aðilar ekki rétt á því að fá þessar bætur.

Þá spyr maður sig: Hvernig er það hægt og hver ber ábyrgð á því að greiða fé úr ríkissjóði þegar ekki er heimild fyrir því í lögum? Þá dugir ekki að segja að þetta séu fordæmalausar aðstæður o.s.frv. Það á einfaldlega (Forseti hringir.) ekki að vera hægt að greiða fé úr ríkissjóði ef ekki er lagaheimild fyrir því. Hvað brást í þessu ferli? Hvers vegna var greitt út þegar stóð í lögunum að það ætti ekki að greiða út? Og ég spyr hv. þingmann: Hver ber ábyrgð á því?