150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mér fannst skýrsla ríkisendurskoðanda alls ekki vera neinn lofsöngur um núverandi frumvarp. Ef maður les á milli línanna fannst mér vera frekar skýrt að þarna var, það var það sem ég tók út úr þessu, aðallega verið að skoða hve mjög eftirlitið vantaði. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við lendum í því í lagagerð. Ég veit að það var verið að flýta sér ofboðslega mikið og það þurfti að drífa þetta í gegn í miklum flýti. En við erum alltaf að klikka á eftirlitinu þegar kemur að svona úrræðum. Við erum aldrei að skoða nægilega vel og tryggja eftirlit og að það sé skýrt í lögunum, nákvæmlega eins og hv. þingmaður segir, hver vilji löggjafans er í þeim málum. Auðvitað var margt sem við hefðum getað gert betur og sérstaklega í vinnu nefndarinnar þegar við vorum með málið hjá okkur. En við höfðum gríðarlega takmarkaðan tíma. Þetta var unnið í ofboðslega miklum flýti og það var margt sem komst ekki til skila og ekki hjá umsagnaraðilum heldur. Það sem mér finnst vera verst er að ekki hafi verið tekinn tími í að skoða skýrsluna betur, sem ríkisendurskoðandi hafði mikið fyrir að koma til okkar í tíma, áður en við afgreiddum nefndarálit frá velferðarnefnd, melta upplýsingarnar og vinna athugasemdir ríkisendurskoðanda betur inn í nefndarálit meiri hlutans, sérstaklega í ljósi þess að nefndarálitið var hvort eð er ekki tilbúið fyrr en seint í gærkvöldi. Það hefði alveg verið tími til að taka miklu betur á athugasemdum og sjónarmiðum ríkisendurskoðanda í nefndarálitinu.

Við erum alltaf að flýta okkur svo rosalega mikið og meira að segja oft þegar mun betra væri að anda inn, hugsa hlutina og þurfa þá ekki að díla við gríðarlega stór mistök eftir á. (Forseti hringir.) Mér finnst við trekk í trekk vera að lenda í sama vanda. Afsakið að ég náði ekki að svara öllu.