150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem við fengum kynningu á, og ég vitnaði í það áðan að mér fyndist hún vera heilbrigðisvottorð á það frumvarp sem hér liggur fyrir, um framlengingu á fyrra frumvarpi um hlutabótaleiðina. Hv. þingmaður talar mikið um eftirlit og skilyrði og mig langar að vita hvaða skilyrði hann sæi fyrir sér að mætti bæta við og hvort hann geti bent á einhver skilyrði sem ekki eru í frumvarpinu sem ríkisendurskoðandi bendir sérstaklega á. Ef ég fæ að vitna í skýrsluna, með leyfi forseta, þá segir um nýja frumvarpið:

„Í því felast m.a. hert skilyrði um fjárhag og rekstur viðkomandi vinnuveitanda ásamt hlutlægum viðmiðum m.a. um tekjufall.“ — Sem sagt 25%.

Það kemur einnig fram í skýrslunni að Vinnumálastofnun hefur boðað að eftirlit verði aukið eftir því sem álag í framlínuþjónustu minnkar. Það hefur komið fram að eftir 1. júní verði þetta samkeyrt, staðgreiðsluskrá og upplýsingar sem koma inn þegar fyrirtæki og launafólk fer inn í þetta úrræði, og eftirlitið verður líka í höndum ríkisskattstjóra með þessari leið. Vinnumálastofnun hefur bætt við fimm starfsmönnum til að vinna sérstaklega að eftirlitinu. Er það eitthvað ákveðið sem segir að í frumvarpinu sé eitthvert ósamræmi og eitthvað sem vantar upp á það sem er nefnt í skýrslu ríkisendurskoðanda? Er það ekki þvert á móti þannig að Ríkisendurskoðun er ánægð með hert skilyrði í þessu nýja frumvarpi?