150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að standa hér og draga úr því að vissulega kom það fram hjá ríkisendurskoðanda að hann teldi þetta frumvarp mjög til bóta og sérstaklega þegar kæmi að skilyrðunum. Og ég tel það líka. Við hefðum átt að hugsa út í þetta mun fyrr en því miður gerðum við það ekki. En þetta er til bóta. Það sem er verra er að uppsagnarstyrkjafrumvarpið er ekki með þeim ströngu skilyrðum sem við erum með hér. Það hvernig samspil þessara tveggja verður mun geta skapað aukinn hvata fyrir fólk til að fara í uppsagnarfrest og vinnur gegn markmiðum þessa frumvarps sem er að viðhalda ráðningarsambandi fólks við vinnuveitanda.

Ég hefði kannski viljað sjá meiri hlutann leggja meiri áherslu á eftirlitið, út frá skýrslu ríkisendurskoðanda. Við fengum þær upplýsingar á sínum tíma, þegar við vorum að vinna að upprunalega frumvarpinu, að eftirlitið væri nægilega vel tryggt. En svo varð náttúrlega miklu meiri ásókn í þetta úrræði en við höfðum gert okkur grein fyrir. Þar af leiðandi var geta Vinnumálastofnunar til að sinna því eftirliti ekki sú sem hún hefði átt að vera. Það var vanmat hjá okkur og hjá ríkisstjórninni hvað það varðar. Ég hefði viljað sjá það alveg tryggt, þó að nokkuð ljóst sé að ásóknin í þetta úrræði mun minnka töluvert, og skýrt hversu mikilvægt það eftirlit er og að það verði tryggt að Vinnumálastofnun hafi öll þau verkfæri og öll þau úrræði sem þarf til að tryggja það.