150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:09]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að fylgja þessu aðeins eftir af því að ég var að spyrja hvað þingmaðurinn héldi að mörg fyrirtæki, af þeim sem hugsanlega gætu notað sér hlutabótaleiðina, væru t.d. með minna en 75% tekjufall og hefðu þess vegna ekkert val um að fara uppsagnarfrestinn. Þau hafa bara val um hvort þau ætli að nýta sér hlutabótaleiðina eða ekki. Ef þau geta ekki nýtt sér hana þá hafa þau ekki val um leiðina í uppsagnarfresti af því að þau eru ekki með 75% tekjufall. Það er önnur spurningin.

Svo er önnur spurning um fyrirtæki eins og hv. þingmaður var að lýsa og ég get alveg tekið undir að séu til staðar: Getur þingmaðurinn séð fyrir sér að þau fyrirtæki, óháð öllum skilyrðum og mun á leiðunum, sem eru með 90% tekjufall, 100% tekjufall, hafi eitthvert val um að fara hlutastarfaleiðina? Hafa þau efni á því að vera skuldbundin í nokkra mánuði til að borga allt að 50% af launum? Hafa þau eitthvert val um það?

Það sem ég er að reyna að benda á er að það er tvennt sem stangast á þegar sagt er að munurinn á leiðunum eða skilyrðunum sé að ýta fólki í uppsagnarleið. Fyrirtæki hafa ekki val um það af því að tekjufallið er ekki nógu mikið annars vegar eða þau hafa ekki val um það af því að tekjufallið er svo mikið að þau hafa hvort sem er ekki efni á að borga mótframlagið sem þarf til að mega fara hlutabótaleiðina.

Að lokum langar mig að spyrja, ef hv. þingmaður hefur tíma til að svara því: Hvað eiga fyrirtækin að endurgreiða? Hvaða stuðning eiga þau að endurgreiða þar sem þau fá ekki krónu í stuðning? Það er launamaðurinn sem fær hann. Hvernig eiga fyrirtækin að endurgreiða það?