150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[22:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um 2. tölulið breytingartillögu frá 2. minni hluta velferðarnefndar. Þar er verið að leggja til breytingu sem kemur sér vel fyrir sjálfstætt starfandi einyrkja, svo sem leigubílstjóra, en þeim hefur gengið brösuglega að nýta sér þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið. Miðflokkurinn styður þessa breytingartillögu sem gengur út á að auðvelda einyrkjum að sækja sér atvinnuleysisbætur. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi er þeim gert að vera í atvinnuleit eins og það heitir, eins kjánalegt og það hljómar í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu og í þeirra starfi. Þeir hafa lagt inn atvinnuleyfi sitt og bíða í raun eftir því að ástandið skáni hvað varðar þeirra atvinnu. Þeir leysa út sitt atvinnuleyfi og halda til vinnu þegar ástandið skánar. Hingað til hefur þeim verið gert að leita sér að vinnu til að fá þessar bætur. Hér er um mikið sanngirnismál að ræða fyrir sjálfstætt starfandi einyrkja. Þeirra stöðu þarf nauðsynlega að leiðrétta.

Ég segi já við þessari tillögu.