151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[13:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að gera grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls svona almennt. Við tökum undir að það þarf að vinna þetta mál miklu betur. Það er algjört lykilatriði fyrir allan almenning í landinu, ekki síst landsbyggðirnar okkar, að raforkuinnviðir séu sterkir og öflugir. Við höfum séð það, m.a. í óveðrinu á síðasta ári, að svo er ekki. Við höfum verið að vanrækja þessa innviði. Við þurfum sterkt Landsnet og ég er hrædd um að það skref sem verið er að stíga sé ekki nægilega afgerandi til að ýta undir sérstöðu og styrk Landsnets til þess einmitt að koma til móts við þær eðlilegu kröfur frá landsbyggðunum að fólkið þar, fyrirtækin og heimilin, hafi ríkan og eðlilegan aðgang að raforkuflutningum. Ég er smeyk við þetta skref sem verið er að stíga og get því ekki stutt málið í heild sinni, tel að það þurfi að vinna þetta mun betur og fara mun betur ofan í kjölinn á þessu svo að við getum haldið betur utan um Landsnet þannig að Landsnet verði ekki eingöngu undirdeild Landsvirkjunar í þessu máli. Það þarf að hugsa málið stærra og þess vegna munum við sitja hjá í þessu máli.