151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[13:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og forseti nefndi er einhvers konar samkomulag um að ljúka þessu máli nú fljótlega. Ég skal því ekki hafa þetta langt en hluti af samkomulaginu var að breytingartillaga hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur kæmist hér á framfæri sem er mjög til bóta. Þrátt fyrir þetta sé ágætt mál og þó að menn hafi talað vel um það var skortur á jafnræði milli íþróttafélaga og annarra æskulýðsfélaga, eins og kom m.a. fram í umsögn KFUM og KFUK og Ungmennafélaganna. Breytingartillögu hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur er ætlað að bæta úr þessu. Ég læt nægja að lesa greinargerðina með breytingartillögunni því að hún skýrir þetta mjög skilmerkilega. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íþrótta- og æskulýðsstarf er mikilvægt fyrir uppvöxt og þroska barna og unglinga. Lagt er til að sömu reglur gildi um greiðslur til æskulýðshreyfinga og íþróttafélaga vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Með því er jafnræði tryggt með aðilum óháð því hvort þeir sinni íþróttastarfi eða æskulýðsstarfi barna.“