151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni og mér finnst ánægjulegt að hún skyldi koma inn á unga fólkið. Svo sannarlega eigum við að bjóða upp á spennandi störf og ég veit til þess að það er mikill áhugi hjá ungu fólki á að starfa við kvikmyndagerð og allt sem viðkemur kvikmyndagerð, förðun, leikmyndagerð og allt þetta. Ég þekki dæmi þess að ungt fólk hafi farið til útlanda og numið förðunarfræði og allt sem er í kringum það. Það þarf jú að búa til ýmsar leikmyndir sem stuðla að sköpun og nýsköpun og framtakssemi og hugmyndaauðgi. Allt þetta skiptir verulegu máli. Síðan viljum við náttúrlega að þetta ágæta fólk kom hingað heim aftur og eigi þá einhver tækifæri til að starfa við það sem það hefur lagt fyrir sig. Þá er kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi náttúrlega mjög mikilvægur. Þetta snýst kannski fyrst og fremst um að umhverfið sé samkeppnishæft, að ætli stórfyrirtæki í kvikmyndaframleiðslu að taka upp ákveðna mynd, stórmynd, sjái það: Ég get tekið hana upp á Írlandi eða ég tekið hana upp á Íslandi, það skipti ekki höfuðmáli, en ég sé að endurgreiðsluhlutfallið er hærra á Írlandi en á Íslandi og þá ætla ég að fara til Írlands, skiljanlega.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að fara alveg ofan í kjölinn á. Við verðum að mínum dómi að vera samkeppnishæf hvað þetta varðar. Það er mikið í húfi, (Forseti hringir.) fjölmörg störf og innspýting inn í efnahagslífið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góð andsvör.