151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Miðflokkurinn er flokkur sem hefur dálæti á menningu og nýsköpun. Með þátttöku hv. þm. Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur hér áðan, mér þykir það með ánægjulegri undantekningum, virðist Miðflokkurinn vera eini flokkurinn á þingi sem hefur áhuga á kvikmyndagerð. Það kemur svo sem ekkert á óvart en það lítur út fyrir það núna. Það frumvarp sem hér er til umræðu er sett fram í kjölfar á skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem farið var fram á að endurgreiðslur yrðu settar í fastara form og tryggt væri að ekki væri að fara úr ríkissjóði eitthvað sem þaðan ætti ekki að fara til kvikmyndagerðar — sem er góðu heilli.

Árið 2020, líklega, rann 2,1 milljarður úr ríkissjóði í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað við fengum í staðinn. Kannski er nærtækasta dæmið lag úr kvikmynd sem ekki fyrir löngu síðan var tilnefnt til Óskarsverðlauna. Ég er að tala um kvikmyndina Evrovisionhátíðina sem var sýnd hér í fyrra og titillagið tilnefnt til Óskarsverðlauna þótt það ynni ekki. Þessi mynd var tekin upp að mestu leyti á Húsavík og hún fékk 135 millj. kr. í endurgreiðslu vegna framleiðslu hér á landi. Ég var að velta því fyrir mér áðan hvort hægt væri að reikna til verðs þá athygli og þann áhuga sem þessi eina kvikmynd hefur vakið á Íslandi sem heild og ég tala nú ekki um Húsavík. Ég held að ef við myndum reikna það saman, herra forseti, myndum við finna út upphæð sem væri töluvert miklu hærri en þessar 135 milljónir sem bara þessi mynd fékk í sinn hlut vegna endurgreiðslu. Þá er ég ekki að tala um allt það sem kvikmyndatökuliðið skildi eftir af tekjum á Húsavík og í nágrenni. Ég held að það sé býsna stór upphæð ef við reiknum það saman.

Eins og alþjóð veit hafa Íslendingar líka verið að hasla sér völl í alþjóðlegri kvikmyndagerð og þar stendur Hildur Guðnadóttir tónskáld náttúrlega fremst meðal jafningja. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér almennt grein fyrir því en fyrir eina kvikmynd er Hildur búin að vinna öll helstu verðlaun sem hægt er að vinna fyrir kvikmyndir, þ.e. BAFTA-verðlaunin, Grammy-verðlaunin og Óskarsverðlaunin. Hópurinn sem hefur unnið þessi þrenn verðlaun fyrir tónlist er mjög fámennur. Ég man ekki hvort það eru 50 eða 60 aðilar sem hafa unnið það afrek. Afrek Hildar er því alveg ótrúlegt og hún er uppörvun og fyrirmynd fyrir fólk sem vill hasla sér völl í kvikmyndum. Ekki er heldur hægt að sleppa því að minnast á að auðvitað vekja þessi verðlaun mikinn áhuga á Íslandi. Þetta vekur athygli á landinu, þetta vekur athygli á því að við eigum afskaplega færa listamenn á þessu sviði þannig að mönnum er ekkert að vanbúnaði að koma hingað og gera kvikmyndir.

Ég ætla líka að minnast á uppbygginguna í Gufunesi, kvikmyndaver sem Baltasar Kormákur Baltasarsson hefur verið að byggja upp og mun alveg örugglega skila okkur mörgum kvikmyndum sem verða teknar upp hér á landi. Ef við horfum aðeins aftur til nokkurra ára gætum við tekið sem dæmi landkynninguna sem Ísland hefur fengið út á sjónvarpsþátt sem á íslensku væri hægt að kalla Krúnuleika og var tekinn upp mjög víða um land. Það vill svo til að margir tökustaðirnir sem hafa orðið vinsælir áfangastaðir ferðamanna eru staðir sem voru ekkert þekktir fyrir, ekki einu sinni kunnir okkur Íslendingum sjálfum. Þannig að þarna eru stór tækifæri. Mig langar líka að minnast á að í gegnum þessi tengsl hefur Ísland eignast fullt af því sem við Íslendingar viljum í smásálarskap okkar kalla Íslandsvini. Mjög margir af frægustu kvikmyndaleikurum í heimi og frægustu leikstjórum í heimi hafa ratað hingað til að vinna að list sinni. Sumir hafa reyndar gripið tækifærið og bundið enda á hjónaband sitt eins og gengur. Ísland hefur líka fengið athygli fyrir það þótt dapurlegt sé.

Fyrir þennan 2,1 milljarð sem við greiddum í fyrra í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar held ég að við séum að fá til baka alveg ótrúlega landkynningu og við erum að fá vinnu fyrir vel menntað og mjög hæft fólk sem vinnur í þessum geira hér á Íslandi. Ég þarf ekkert að telja upp alla þá sem hafa haslað sér völl erlendis, hvort sem það er fyrir klippingu, fyrir kvikmyndastjórn eða í kvikmyndaleik þar sem nokkrir aðilar eru núna í stórum verkefnum erlendis. Allt eykur þetta þann hróður og býr til það tengslanet sem er svo nauðsynlegt til þess að við fáum notið meiri tekna og tækifæra út af þessari framleiðslu.

Þá verð ég að vera aðeins lengur norðanlands vegna þess að svo vill til að í Hofi á Akureyri er að staðaldri verið að taka upp kvikmynda- og sjónvarpstónlist. Það þýðir, ef mér skjöplast ekki, að vegna þessara verkefna breyttist Sinfonia Nord eða Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í hljómsveit sem er með hljóðfæraleikarana á föstum launum. Það er náttúrlega alveg stórkostlegt, herra forseti. Það er stórkostlegt afrek að þetta skuli gerast í bæ á stærð við Akureyri. Eins og við vitum hefur það t.d. hjálpað tónlistarfólkinu okkar, og ég verð þar að minnast á Atla Örvarsson tónskáld, þetta fólk vinnur að sinni list og hefur tölvusamskipti, það vinnur að verkum sem eiga uppruna sinn t.d. á vesturströnd Ameríku, það er í samskiptum og sendir á milli sín upptökur og prufur, fram og til baka á netinu, og er að vinna í tölvu að þessu, plús sinfóníuhljómsveitin í Hofi. Þetta eru stórkostleg tækifæri fyrir bæjarfélög, fyrir þá sem þar búa og fyrir listamennina sem koma að. Það er því brýnt og það er mjög gott að við skulum nú standa frammi fyrir því að vera enn að framlengja lög um endurgreiðslu á kostnaði vegna kvikmyndagerðar þó að við séum að setja skarpari ramma um þær endurgreiðslur að kröfu Ríkisendurskoðunar. Verandi gamall vinur ríkissjóðs til margra ára og gæslumaður hans þá þykir mér vænt um ríkissjóð og ég vil að allir gangi um hann af tilhlýðilegri virðingu. Það er því verulega góðu heilli gert að við skulum fara í þessa vegferð.

Mig langar líka til að minnast á að komið hefur fram að svo virðist sem Írland og fleiri lönd jafnvel séu að undirbjóða okkur hvað þetta varðar. Við þurfum vissulega að gæta að því. Nú er ég ekki að hvetja til þess að íslenski ríkissjóðurinn fari í einhver stórkostleg undirboð á þessum markaði en ég vil samt brýna fyrir mönnum að vera á tánum yfir því hvað er að gerast í þessum geira til þess að við töpum ekki tækifærum og töpum ekki stórum verkefnum úr landi sem ella myndu rata hingað. Þegar við horfum á hvernig öðrum þjóðum hefur farnast sem hafa fetað þessa slóð verður maður t.d. að minnast á hvernig kvikmyndagerð á Nýja-Sjálandi hefur stóreflst og margfaldast í framhaldi af þríleiknum um Hringadróttin og Hringadróttinssögu. Mættum við þar margt af læra. Það eru mörg hundruð þúsunda ferðamanna sem gera sér ferð til Nýja-Sjálands til þess einmitt að berja augum tökustaði sem voru notaðir í Hringadróttinssögu-þríleiknum. Við höfum mýmörg dæmi hér á Íslandi. Ég minntist á Evróvisjón-myndina sem var gerð á Húsavík. Við fengum fyrir nokkrum árum aðra mynd sem var tekin upp bæði á Seyðisfirði og víðar um land. Ég veit að erlendir kvikmyndaaðdáendur hafa flykkst hingað til Íslands til að berja augum tökustaði í þeirri mynd sem Ben Stiller lék í og ég man ekki hvort hann stjórnaði henni líka.

Tækifærin eru því ærin og þau eru ærin núna vegna þess að nú þegar við erum að koma út úr þessari kórónuveirukreppu, ekki bara við heldur heimsbyggðin öll, þá er mikill þorsti eftir kvikmyndum. Það er uppsöfnuð þörf kvikmyndaaðdáenda til að flykkjast í bíó sem þýðir að við eigum mjög mikla möguleika, jafnvel meiri heldur en fyrr, á því að hingað rati stórverkefni í kvikmyndagerð. Með því að hafa góðan ramma eins og hér er settur og með því að hafa endurgreiðslur sem eru á pari við það sem gerist hér nær okkur tel ég að við eigum mikla möguleika. Og okkur veitir ekki af, herra forseti, að fá tækifæri hingað inn. Hér hefur verið nefnt að nýsköpun verður t.d. helsti drifkraftur uppbyggingar nú að lokinni veirunni. Þá verður kannski skaðaminnkun af þessu máli, skaðaminnkun af því að ríkisstjórnin skyldi leggja niður Nýsköpunarmiðstöð við þessar aðstæður, á vakt Sjálfstæðisflokksins. Það verður kannski skaðaminnkun af því að við skulum þó alla vega gyrða okkur í brók hvað það varðar, þ.e. endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Ég er alveg sannfærður um að sú gerð sem við erum nú að vinna að muni einmitt verða til þess hugsanlega að minnka skaðann af frumhlaupi ríkisstjórnarinnar í nýsköpunarmálum og rétta okkur tækifæri sem ríkisstjórnin hefði annars sólundað eins og mörgum öðrum.

Það er um að gera fyrir okkur líka að kynna mjög rækilega fyrir umheiminum hvernig þessi kjör eru, að kröfurnar hafi aðeins breyst. Við þurfum að kynna það verulega vel og við þurfum auðvitað að liðsinna okkar fólki til að það verði klárt í að taka að sér stór verkefni. Ég minntist á stúdíóið í Gufunesi áðan. Það getur orðið svo stór iðnaður á Íslandi, herra forseti, að það getur líka orðið ein af góðum stoðum undir frekari tækniframfarir og til að tryggja því unga fólki sem hefur lagt í að læra til þessara verkefna góðan starfsgrundvöll og aðgang að góðum og vel launuðum störfum. Þess vegna þurfum við að styðja við kvikmyndagerð eins og við mögulega getum, herra forseti.