151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

Barnvænt Ísland -- framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

762. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá velferðarnefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá félagsmálaráðuneyti, Þóru Jónsdóttur og Lindu Hrönn Þórisdóttur frá Barnaheillum og Árna Múla Jónasson frá Landssamtökunum Þroskahjálp.

Nefndinni bárust umsagnir frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Landssamtökunum Þroskahjálp, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umboðsmanni barna og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með þingsályktunartillögunni eru sett fram markmið og aðgerðaáætlun fyrir árin 2021–2024 um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í ályktuninni eru markmiðin sett fram í tólf liðum. Þeir eru þessir: Þátttaka barna, fræðsla um þátttöku og réttindi barna, barnvæn stjórnsýsla, hagsmunamat út frá réttindum barna, heildstæð stefna í málefnum barna, lagabreytingar og alþjóðlegar skuldbindingar um réttindi barna, samræmd innleiðing á réttindum barna, markviss öflun gagna um farsæld og réttindi barna á Íslandi, greining útgjalda hins opinbera til að tryggja réttindi barna og farsæld, áhersla á réttindi barna í alþjóðlegu samstarfi og eftirfylgni og endurmat.

Almenn ánægja var meðal umsagnaraðila um tillöguna, þeirra sem hvetja til samþykktar hennar. Barnaheill fjölluðu í umsögn sinni um mikilvægi þess að fræða foreldra um réttindi barna og fagna því að gert sé ráð fyrir að unnið verði fræðsluefni um innleiðingu og beitingu barnasáttmálans fyrir börn, forsjáraðila, fagstéttir o.fl. Samtökin hvetja stjórnvöld til að leggja ríka áherslu á fræðslu fyrir foreldra um réttindi barna og skapa aðstæður þar sem foreldrar geti sótt sér fræðslu um uppeldisfærni á meðgöngu og á fyrstu árum í lífi barns. Nefndin tekur undir þetta sjónarmið og áréttar mikilvægi foreldrafræðslu þar sem unnið er með jákvæðar uppeldisaðferðir svo að hægt sé að skapa bestu mögulegu aðstæður í lífi barna inni á heimilum og í daglegu lífi þeirra.

Í tillögunni er fjallað um rafrænan þátttökuvettvang barna og barnvæna samráðsgátt. Persónuvernd vekur athygli á því í umsögn sinni að persónuupplýsingar barna njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þar sem þau kunni að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin tekur undir með Persónuvernd um mikilvægi þess að hvers kyns vinnsla persónuupplýsinga, sem fram fer í tengslum við rafrænan þátttökuvettvang fyrir börn og barnvæna samráðsgátt, verði í fullu samræmi við kröfur laga nr. 90/2018, m.a. hvað varðar heimild til vinnslu, meginreglur og öryggi persónuupplýsinga.

Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands benda á mikilvægi þess að öll stefnumótun íslenskra stjórnvalda sem varðar börn taki mið af þeirri staðreynd að fötluð börn njóta færri tækifæra en ófötluð og eru óumdeilanlega líklegri til þess að sæta mismunun á flestum sviðum og verða fyrir ofbeldi. Allar aðgerðir sem fjalla um börn almennt verða því að miða að því að tryggja fötluðum börnum öll réttindi og tækifæri til jafns við önnur börn og verja þau með öllum tiltækum ráðum fyrir mismunun og ofbeldi af öllu tagi. Samtökin lýsa yfir mikilli ánægju með þá áherslu sem lögð er á að íslensk löggjöf verði samræmd barnasáttmálanum og að stjórnvöld uppfylli frekari skuldbindingar er varða rétt barna. Samtökin ítreka mikilvægi þess að gæta sérstaklega að hagsmunum fatlaðra barna. Auk þess hvetja bæði Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands til þess að horft verði til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem réttindi fatlaðra barna eru áréttuð enn frekar.

Nefndin leggur áherslu á að þær aðgerðir og þau markmið sem lögð eru fram með þingsályktunartillögu þessari nái til allra barna, jafnt þeirra sem tilheyra jaðarhópum sem annarra.

Nefndin leggur því til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Tölul. 9.1.1 í II. kafla orðist svo: Útgjöld hins opinbera verði greind út frá réttindum barna.

Hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Anna Kolbrún Árnadóttir, Helga Vala Helgadóttir og Halldóra Mogensen skrifa undir álitið með fyrirvara sem þær gera grein fyrir í ræðu en aðrir þingmenn sem skrifuðu undir eru Halla Signý Kristjánsdóttir framsögumaður, Guðmundur Ingi Kristjánsson, Ásmundur Friðriksson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason.