153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

frumvarp um heimildir ríkissáttasemjara.

[13:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sagði nú reyndar ekki, þó að hv. þingmaður hafi þóst heyra mig segja það: Sjáið þið ekki veisluna? Ég hef hins vegar ekkert haldið aftur af mér við að benda á staðreyndir um það hvernig efnahagsleg þróun hefur verið í landinu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hækkandi vextir eru ekkert gamanmál en þeir eru ekki til komnir vegna kreppu eins og sumir virðast telja. Það er of mikil þensla í samfélaginu og í hagkerfinu er verið að reyna að kæla. Það er fullt atvinnustig. Kaupmáttur er mjög hár, hann er hærri en víðast annars staðar. Kaupmáttur lægstu launa er líka hár á Íslandi. En þessu er ógnað af verðbólgunni og verðbólguhorfum. Í samhengi við húsnæðislánin, sem hv. þingmaður nefnir hér, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim sem hafa séð mjög mikla aukningu á greiðslubyrðinni. En við getum samt ekki horft fram hjá því á sama tíma að þrátt fyrir allt þá hafa verið hér neikvæðir raunvextir. Eignaverð hefur verið að hækka og lánin hafa borið neikvæða raunvexti, (Forseti hringir.) sem er merkileg staðreynd. Og þegar reikningur heimilisins er gerður upp í heild sinni þá er staðan ekki jafn svört og ætla mætti af umræðunni.