153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

stýrivextir og aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[13:59]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Seðlabankastjóri mun að öllum líkindum hækka stýrivexti um a.m.k. heilt prósentustig á morgun. Enn er látið eins og bankinn sé í hlutverki fórnarlambsins og taki ákvörðun um vaxtahækkanir tilneyddur. Þó að ég geti vissulega tekið undir að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt af því sem undir hana heyrir til að trappa niður verðbólguna þá get ég engan veginn tekið undir með seðlabankastjóra að bankinn neyðist til að hækka vexti trekk í trekk vegna verðbólgunnar. Seðlabankinn neyðist ekki til að gera eitt né neitt. Hann er hins vegar greinilega búinn að ákveða að fórna heimilunum fyrir bankana vegna eigin mistaka, sem er of langt mál að rekja hér.

Ég hef oft bent á þá fásinnu að fólk, sem enginn hefur kjörið, hafi slík völd yfir afkomu heimilanna og geti leitt þau í slíkar ógöngur að margar fjölskyldur munu aldrei bíða þess bætur. Það nær hreinlega ekki nokkurri átt að þrjár manneskjur í Seðlabankanum hafi meiri völd en ríkisstjórnin, alþingismenn, sveitarstjórnir og verkalýðshreyfingin samanlagt, að kjörnir fulltrúar landsins hafi minni áhrif á fjárhag heimilanna en örfáir einstaklingar uppi í Seðlabanka. En sú er staðan í dag.

Þegar peningastefnunefnd er skoðuð kemur í ljós að hún er ákaflega einsleit. Allir nefndarmenn hafa sterk tengsl við fjármálageirann og í henni er enginn fulltrúi neytenda. Einnig má færa rök fyrir því að fólk sem er með í kringum 2 milljónir í laun á mánuði sé ekki hæft til að dæma almenning, alla hina, í ánauð bankanna og til húsnæðisleysis. Fólk með slíkar tekjur deilir ekki kjörum með almenningi og á því auðvelt með að dæma almenning í ánauð bankanna á grundvelli úreltra hagfræðikenninga. Gleymum því ekki að fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, stýrivaxtafíkillinn Paul Walker, sagði á sínum tíma að til þess að ná verðbólgu niður þyrftu lífskjör að lækka og það er í alvöru hugmyndafræði peningastefnunefndarinnar. Þær kenningar sem Seðlabankinn starfar eftir hafa það beinlínis að markmiði að lækka lífskjör almennings. Þau eru öll á grænni grein og geta því talað fjálglega um ásættanlegan fórnarkostnað eða að auðvitað sé ekki hægt að bjarga öllum. Stóra málið er hins vegar að ef þau væru ekki raunvaxtafíklar að missa sig í rétttrúnaðinn þá þyrfti ekki að bjarga neinum. Því spyr ég: Ætlar hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin að standa áfram á hliðarlínunni á meðan þrír nefndarmenn peningastefnunefndarinnar leiða þúsundir heimila og fyrirtækja í glötun? Er einhver von til þess að hann og þessi ríkisstjórn axli einhvern tímann ábyrgð sína gagnvart heimilum landsins sem kjörnir fulltrúar eða eruð þið bara búin að gefa þetta eftir?