153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

stýrivextir og aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu.

[14:03]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Nei, vextir skipta svo sannarlega heilmiklu máli og með þeim er verið að fórna heimilum landsins núna. Og það er ekki bara þau verst stöddu sem eru í vandræðum. Það að hækka vexti 13 sinnum í röð án árangurs lýsir einhvers konar þráhyggju og þegar vitað er að það tekur u.þ.b. ár fyrir vaxtahækkanir að hafa áhrif, hvers vegna er þá verið að hækka á sex vikna fresti í staðinn fyrir að leyfa þessum áhrifum að koma fram? 40 millj. kr. lán með vaxtabyrði upp á 100.000 kr. þegar þetta brjálæði hófst er núna komið með vaxtakostnað upp á 300.000 og á morgun bætast líklega við 33.000 kr. í viðbót. Þetta er að fórna heimilunum. Fjölmörg heimili sem hugsanlega eru enn þá að kljúfa þetta munu ekki geta gert það mikið lengur. Auk þess er ljóst að þessi aukni kostnaður mun fara beint út í leiguverð. Til að sýna fram á það nægir að vitna í forstjóra Ölmu sem boðar enn frekari leiguhækkun. Vaxtahækkanir undanfarinna mánaða eru glæpur gegn fólkinu í landinu. Það getur vel verið að glæpurinn sé framinn í skjóli laga og verði þannig aldrei skilgreindur sem slíkur. En hvað er það að koma þúsundum heimila á vonarvöl með markvissum hætti annað en glæpur, glæpur sem í mínum huga mætti líkja við landráð? Landráð er skilgreint sem glæpur gegn ríkinu og hvað er það annað en árás gegn ríkinu þegar ráðist er með (Forseti hringir.) beinum hætti gegn undirstöðum þjóðfélagsins, heimilunum sjálfum? Ég vil kalla þetta landráð og segja að nú sé nóg komið. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin og peningastefnunefnd Seðlabankans bera fulla ábyrgð á þeim hörmungum sem brátt dynja yfir tugþúsundir heimila. (Forseti hringir.) Hversu langt ætlar ríkisstjórnin að leyfa þessu að ganga áður en hún grípur í taumana?