Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

efling barnamenningar fyrir árin 2024-2028.

804. mál
[14:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það var úthlutað síðasta sinni úr Barnamenningarsjóði, þeim sem við samþykktum á hátíðarfundi á Þingvöllum að stofna vegna 100 ára afmælis fullveldisins. Ég hef fengið að fylgjast með starfsemi þessa sjóðs og þetta er eitt af þeim verkefnum sem hefur tekist frábærlega, ég vil nýta tækifærið hér til að segja það. Greinilega var mikil þörf fyrir nákvæmlega svona sjóð, að styðja við menningu og listir barna á forsendum barna hringinn í kringum landið, starf sem brúar bil á milli ólíkra hópa. Það gleður mig því mjög að við séum hér að fara að afgreiða tillögu sem snýst um að festa þetta starf í sessi, bæði sjóðinn en líka að koma á laggirnar nýrri miðstöð barnamenningar. Ég held að þetta sýni ákveðna framsýn því að menning og skapandi starf er eitt af því sem á eftir að skipta hvað mestu máli í framtíð þar sem við erum að sjá aukin áhrif tæknibreytinga á allt okkar líf og umhverfi. Ég fagna því að við séum komin á þennan stað. Verkefnið færist í kjölfarið yfir til menningar- og viðskiptaráðherra og mun eiga varanlegan sess þar.