131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

708. mál
[14:37]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa ánægju með þetta frumvarp og sérstaklega öll lög sem taka á skipulegum viðskiptum með stór hlutabréf og stór fyrirtæki.

Hér er ritað, með leyfi forseta:

„Jafnframt er fjárfestum veitt grundvallarvernd sem felst m.a. í jafnræði þeirra til að fá upplýsingar og að komið sé í veg fyrir markaðssvik, þ.e. innherjasvik og markaðsmisnotkun. Ætla má að markaðstorg stuðli þannig að aukinni skilvirkni á fjármálamarkaði.“

Nú vil ég áður en ég spyr spurningarinnar taka skýrt fram að í máli mínu er ekki verið að vísa í neina umræðu undanfarinna daga en mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist setja svipuð lög um sölu hlutabréfa í eigu ríkisins í fyrirtækjum.