135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

innheimtulög.

324. mál
[12:48]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef stundum sagt í umræðunni að við framsóknarmenn greinum okkur frá sjálfstæðismönnum á þann hátt að við höfnum einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu. Það er mjög skýr aðgreining. Á hinn bóginn greinum við okkur frá Vinstri grænum þar sem við viljum að atvinnulífið sé frjálst og aðkoma ríkisins sé með allra minnsta móti.

Ég held að það sem við aðgreinum okkur líka fyrst og fremst frá Samfylkingunni er að við tölum ekki upp í eyrað á fólki. Ég held að það verði að liggja alveg ljóst fyrir að frumvarp þetta fjallar ekki um neytendamál. Það fjallar fyrst og fremst um réttarstöðu skuldara. Ég verð að segja eins og er að skuldari er í mínum huga ekki neytandi þó að hann geti að sjálfsögðu verið það á einhverju frumstigi og svo verður hann skuldari. Það sem mér finnst vanta í frumvarpið er sú hugsun fyrst og fremst að skuldarinn skuldar einhverjum pening. Það er einhver sem af einhverjum ástæðum, hver sem hún kann að vera, borgar ekki skuldina sína og það er ekki alltaf þannig að skuldarinn sé litli aðilinn. Það getur meira en vel verið að kröfuhafinn sé litli aðilinn og hann fái ekki greidda kröfu eða skuld frá stórfyrirtæki, þess vegna banka. Mér finnst að umræðan um það að hér sé um einhverja réttarbót eða neytendavæn lög að ræða ekki eiga rétt á sér og ég vara við að sá skilningur komi fram.

Mér finnst líka óljóst í 12. gr. um hvað ráðherra megi setja reglugerð en þar segir, með leyfi forseta:

„Viðskiptaráðherra getur að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila ákveðið í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja skuldara um samkvæmt lögum þessum.“

Ég vil að fram komi að þessar fjárhæðir eru almennt í dag mjög lágar. Mér finnst því stundum eins og þetta sé gert til að tala upp í eyrað á fólki, fara þarna með vindinum.

Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um einhliða rétt kröfuhafa á framsali. Það er einfaldlega meginregla í kröfurétti og það helgast af mjög eðlilegum sjónarmiðum að kröfuhafinn getur selt öðrum kröfu sína. Skuldara má einu skipta hverjum hann skuldar, hann þarf í öllu falli að greiða kröfu sína. Aftur á móti varðar kröfuhafann miklu um það hver er skuldari hans. Skuldarar geta verið með ýmsu móti, þeir geta verið á mismunandi stað eða hversu illa þeir eru staddir. Sumir eru þegar komnir með árangurslaust fjárnám og þá er í raun alveg ljóst að öll innheimta á þann aðila væri útilokuð ef ekki ómöguleg.

Ég er skráður á nefndarálitið án fyrirvara. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að fram hefði komið að ég væri með fyrirvara en vera má að ég hafi kannski ekki talað nógu skýrt í þeim efnum. Ég vil líka taka fram að ég styð það að þessi mál séu sett í fastari skorður þó að ég hefði kannski kosið að það væri gert á annan hátt og ég vona að málflutningur minn verði ekki skilinn sem svo að vissulega er um marga skuldara þannig ástatt að kröfuhafi getur níðst á þeim með einum eða öðrum hætti og þá sérstaklega þegar er lagður verulegur innheimtukostnaður eða ósanngjarn innheimtukostnaður á tilkynningar eða bréf sem skuldaranum eru send.

Ég velti því líka fyrir mér að það kemur fram í lögunum að munurinn á því hvenær lögmaður má fara að taka eðlilegan lögmannskostnað er að mínu mati óljós. Það er vísbending um það í 5. mgr. 7. gr., ef ég skil þetta rétt.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Ef skuldari hefur sannanlega hreyft mótbárum gegn peningakröfu er heimilt að bera ágreining um réttmæti kröfunnar undir dómstóla án þess að fyrst sé gætt ákvæða þessarar greinar.“

Þá þurfa að koma frá skuldaranum einhvers konar sannanlegar mótbárur og maður veltir því fyrir sér hver staðan er vegna þess að skuldari getur verið í þeirri stöðu að hann getur þæft mál, hann getur tafið mál, hann getur boðað til funda þar sem nauðsynlegt getur verið að hafa með sér sérfræðing eða lögmann á launum og allt þetta hefur í för með sér kostnað, sem ég tel að sé sanngjarnt að skuldarinn beri ef hann neitar alltaf að greiða kröfuna.

Það sem ég hefði viljað sjá tekið inn í lagafrumvarpið en hefur e.t.v. ekki komið fram hjá mér áður er þetta með innheimtuvaktina. Innheimtuvaktin er fólgin í því að kröfum sem ættu að fyrnast samkvæmt fyrningarlögum, langflestar á fjórum árum, er haldið lifandi nánast alla ævi. Sá skuldari sem lendir í kröggum og getur ekki borgað situr einfaldlega uppi með það svo lengi sem hann lifir að hann má ekki eignast nokkurn skapaðan hlut og kemst þar af leiðandi aldrei út úr því. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki farið með það inn í nefndina og rætt það þar.

Mér finnst breytingartillögurnar vera jákvæðar og í rétta átt. Ég mun því styðja frumvarpið, en ég tel ekki að um einhverjar réttarbætur sé fyrir neytendur að ræða. Það er einfaldlega verið að skýra reglur um innheimtu og hvaða fjárhæðir megi þar gera.