135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[15:44]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hér er fjallað um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2006 og hv. þm. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, hefur mælt fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar. Ég mun mæla fyrir áliti minni hluta fjárlaganefndar en hann skipa auk mín sem er í fjárlaganefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Bjarni Harðarson, fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins. Við stöndum saman að þessu nefndaráliti, frú forseti, við frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2006.

Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2006 er hið níunda í röðinni síðan ný lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, tóku gildi. Megintilgangurinn með framlagningu þessa frumvarps er að staðfesta niðurstöðu ríkisreiknings fyrir árið 2006 og veita ýmsar upplýsingar um stöðu ríkisfjármála.

Í 45. gr. fjárreiðulaganna er fjallað um frumvarp til lokafjárlaga og segir þar orðrétt: „Með ríkisreikningi sem lagður er fyrir Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar á milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingum næsta árs. Einnig skal gera grein fyrir ónýttum lántökuheimildum næstliðins árs.“

Ljóst er að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar uppfyllir ekki öll skilyrði þessarar greinar. Í fyrsta lagi fylgdi frumvarpið ekki ríkisreikningi þegar hann var lagður fram á sínum tíma. Í öðru lagi eru ekki gefnar skýringar á geymdum fjárheimildum og í því eru ekki heldur upplýsingar um þá aðila sem farið hafa fram úr fjárheimildum ársins. Þá er í þriðja lagi ekki gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í 44. gr. kemur fram að ef ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf, valda því að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum, skuli leita heimilda fyrir þeim í lokafjárlögum.

Frú forseti. Ég vil aðeins staldra við og fara ítarlega ofan í þessa skipan mála. Fyrsta frumvarpið sem lagt er fram á haustþingi í byrjun október er frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár, svipað og var á sl. hausti árið 2007, en þá var lagt fram í upphafi þings frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008. Um það var síðan fjallað og fjárlaganefnd fjallar um það og það er síðan afgreitt sem fjárlög fyrir árið 2008.

Á árinu 2008 geta orðið ýmsar breytingar bæði á gjalda- og teknahliðum frumvarpsins. Þá hafa verið flutt svokölluð fjáraukalög til að heimila breytingarnar á fjárlögum innan ársins. Fjáraukalögin hafa yfirleitt ekki verið flutt fyrr en á haustinu samhliða og um leið og fjárlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár er flutt. Í fjáraukalögum eru teknar inn ýmsar ákvarðanir um heimildir innan ársins sem er breytt frá fjárlögum. Oft og tíðum er það svo að Alþingi stendur þá frammi fyrir orðnum hlut. Ráðherrar hafa ákveðið greiðslur umfram fjárlagaheimildir eða breytt þeim innan ársins sem síðan er leitað staðfestingar Alþingis á.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson vakti svo rækilega athygli á því að ekki er heimilt að inna neinar greiðslur af hendi úr ríkissjóði né skuldbinda hann á nokkurn hátt án þess að fyrir því liggi heimild frá Alþingi á fjárlögum. Á þessu hefur verið gríðarlegur misbrestur svo það má nærri því segja að ráðherrar hafi umgengist þessa lagagrein af furðulegri léttúð. Sumir mundu jafnvel segja að það jaðraði við lögbrot af hálfu ráðherranna þar sem Alþingi og ríkissjóður hefur verið skuldbundinn með beinum greiðslum eða samningum innan ársins án þess að það væri nokkur heimild til þess á fjárlögum.

Það er sama hversu oft við höfum tekið á þessu máli. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hér er inni er mér um margt sammála einmitt í þessum efnum og í áranna rás höfum við ítrekað lagt áherslu á þetta á Alþingi í umgengni við fjármuni ríkisins, fjárstýringu og fjárreiður. En það virðist eins og talað hafi verið fyrir gersamlega daufum eyrum, a.m.k. upplifi ég það þannig að ástandið hafi versnað ef eitthvað er hvað varðar lausagöngu ráðherranna um fjárlögin. Í upphafi hvers fjárlagaárs eða á haustin þegar Alþingi kemur saman minnist ég mikilla svardaga í fjárlaganefnd hjá meiri hlutanum, hver sem hann er á hverjum tíma, og öllum um að nú skuli verða breyting á. Núverandi fjárlaganefnd er í sjálfu sér engin undantekning hvað þá svardaga varðar. Hún er komin í þann sama kór og er velkomin. Ég minni einmitt á að miklar heitstrengingar bæði hv. formanns og hv. varaformanns fjárlaganefndar og annarra fjárlaganefndarmanna á sl. hausti um að nú skyldi þegar í stað taka upp breytt vinnubrögð (PHB: … það hefur verið gert.) Það hefur því miður ekki verið gert. (PHB: Jú, jú.) Nei, og ég kem að því aftur.

Menn hafa haft um það mikil og stór orð. Svo þegar gengið er eftir er alltaf sagt: Við reynum þetta á næsta ári. Nákvæmlega það sama og hefur verið sagt undanfarin ár og við hv. þm. Pétur H. Blöndal þekkjum. Við þekkjum þessa umræðu. Þess vegna verð ég að segja það, áður en ég kem að nefndarálitinu, að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum. Þetta frumvarp til lokafjárlaga samræmist alls ekki fjárreiðulögum, hvorki tímasetning á því, framsetning né innihald. Það er bara staðreynd. Allir þeir þættir sem hv. þm. Gunnar Svavarsson var að rekja og finna að við frumvarpið fara á svig við fjárreiðulög og þess vegna lagði ég til þegar þetta lokafrumvarp til fjárlaga var lagt fram á útmánuðum að nefndin yrði sammála um að senda það til baka aftur til fjármálaráðuneytisins þannig að þetta frumvarp yrði a.m.k. unnið efnislega og sett fram í samræmi við fjárreiðulög og þann vilja nefndarinnar að þetta kæmi allt saman vel fram þarna. Á þessu guggnaði meiri hluti nefndarinnar, því miður, eins samræmi á milli ríkisreiknings og fjárlaga.

Ég hef ítrekað lagt fram á Alþingi tillögur til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins sem hljóða upp á að Alþingi verði skylt að leggja fram fjáraukalög a.m.k. tvisvar á ári þannig að lögð verði fram fjáraukalög að vori sem tækju til þeirra breytinga sem menn teldu vera orðnar á samþykktum fjárlögum ríkisins. Þau tækju á breytingum eða samþykktum sem Alþingi hefur gert sem hefðu fjárskuldbindingar í för með sér, breytingum sem vetrarþingið hefði gert og það kæmi fram í fjáraukalögum að vori. Það er svo skýr krafa og skilyrði í lögum um fjárreiður ríkisins og í stjórnarskránni sem hv. þingmaður vitnaði til að ekki má inna af hendi greiðslur án samþykkis Alþingis. Þá á það líka að vera þannig en þannig hefur það ekki verið, bara alls ekki og miklu síður, ráðherrar hafa ákveðið að fá greitt úr ríkissjóði án heimildar. Þeir hafa skrifað undir samninga og skuldbindingar, að skuldbinda ríkissjóð án heimilda. Þetta geta verið verkefni sem allir vilja svo sem styðja en það á að gera það á löglegan hátt og það á að gera með því að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga ef það er ekki inni á fjárlögum þannig að fjárlög séu sem best unnin og taki til sem flestra þátta. Annars á að leggja það fram í frumvarpi til fjáraukalaga áður en skrifað er undir eða gengið undir viðkomandi skuldbindingar eða upphæðirnar greiddar. Og þangað til það verður gert verður ekkert lag á þessu, ekki fyrr. Það var það sem ég vonaðist eftir að meiri hluti fjárlaganefndar mundi krefjast nú á þessu þingi vegna þess að það hafði í sjálfu sér ekkert með fortíðina að gera. Það átti að taka upp breytt vinnubrögð strax á þessu þingi í samræmi við orð hv. þingmanna og formanna og varaformanna í fjárlaganefnd. Það var þeim í lófa lagið að gera. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að það skyldi ekki gert.

Ég ætla þá að víkja aðeins frekar að efni nefndarálitsins en það speglast mjög af því að frumvarp til loka fjárlaga og öll framsetning og tilurð þess eru á svig við fjárreiðulög. Í rauninni er verið að leggja það fram sem orðinn hlut, búið er að staðfesta það í ríkisreikningi og svo er verið að bera það á borð fyrir Alþingi að stimpla það. Það er bara staðreynd. Alþingi er notað sem stimpilpúði fyrir framkvæmdavaldið á gerðum sem það er fyrir allnokkru búið að ganga frá.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að í 1. gr. þess eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana og verkefna vegna fráviks markaðra tekna frá áætlun fjárlaga og fjáraukalaga. Samtals er gert ráð fyrir að fjárheimildir vegna þessa hækki nettó um 962,6 millj. kr. Nánar tiltekið er hér leitað eftir heimild Alþingis fyrir ráðstöfun ríkistekna stofnana og verkefna, ýmist í samræmi við það hverjar tekjurnar urðu samkvæmt uppgjöri eða hver metin fjárþörf við skil ríkistekna reyndist vera. Einnig segir þar orðrétt: „Slíkar breytingar á fjárheimildum ríkisaðila og ráðstöfun ríkistekna verður að ákvarða með lögum á Alþingi á sama hátt og gert er í fjárlögum og fjáraukalögum.“

Ef menn héldu sig aðeins við þetta, að aðeins væri verið að færa inn sértekjur sem hefðu komið inn, þá er það ekki svo. Frumvarpið inniheldur líka afgreiðslur á uppfærðum gjöldum sem eru ekki hluti sértekna.

Þegar fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu komst hann svo að orði: „Almennt gildir að þegar útgjaldaheimildir fjárlagaliða hækka hafa lögboðnar ríkistekjur til fjármögnunar á útgjöldum reynst vera meiri en áætlað var í fjárlögum en lækka hafi tekjurnar reynst vera minni. Þetta á þó ekki alltaf við því að ekki eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana af þessum sökum í þeim tilvikum þegar ekki er beint samband milli útgjaldaþarfar og fjármögnunar á þann veg að breytingar í tekjum hafi beinlínis áhrif á kostnað.“

Hér endurspeglast grundvallarmisskilningur framkvæmdarvaldsins um tilgang lokafjárlaga. Þessa hugsun endurspeglar síðan formaður fjárlaganefndar þegar hann segir í 1. umr. um frumvarpið: „Samkvæmt fjárreiðulögunum eru lokafjárlög ekkert öðruvísi en fjáraukalög eða fjárlög í því tilliti að verið er að leita heimilda hjá Alþingi til að fara fram með fjárveitingar til ákveðinna verkefna.“ Í 44. gr. er skýrt tekið fram í hvaða tilfellum lokafjárlög geta veitt viðbótarfjárheimildir.

Það sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu eru verklagsreglur sem framkvæmdarvaldið hefur sett en eiga enga stoð í fjárreiðulögunum. Í þeim er hvergi vikið að því með hvaða hætti skatttekjur og rekstrartekjur geta haft áhrif á fjárheimildir stofnana. Það er hlutverk Alþingis að marka útgjaldarammann, hann getur ekki og má ekki ráðast með öðrum hætti.

Í áliti minni hlutans um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003 kom fram það álit lögfræðings í fjármálaráðuneytinu að í ljósi fjárstjórnarvalds Alþingis og með vísan til 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 21. gr. fjárreiðulaganna, er ekki unnt að víkja frá þeim meginmarkmiðum sem þar koma fram um að leita skuli heimilda til greiðslna úr ríkissjóði, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna, sem stafa af því að markaðar tekjur og rekstrartekjur reynast hærri en áætlað var í fjárlögum.

Þetta álit ítrekar það meginhlutverk lokafjárlaga að staðfesta niðurstöður ríkisreiknings en ekki veita viðbótarfjárheimildir. Þá má benda á þá staðreynd að hér er verið að veita viðbótarfjárheimild löngu eftir að viðkomandi fjárhagsári er lokið og í sumum tilfellum að draga saman útgjöld stofnana án tillits til þeirra fjárlaga og fjáraukalaga sem samþykkt hafa verið síðan.

Við samþykkt fjárlaga er ákveðið rekstrarumfang stofnana ríkisins og þar með þjónustustig þeirra. Gallinn er hins vegar sá að við þessa samþykkt er ekki tekið tillit til fjárhagsstöðu þeirra stofnana sem búa við hallarekstur og geta því ekki haldið uppi því þjónustustigi sem fjárlög gera ráð fyrir. Þannig er stór hluti fjárlaga marklaus þegar við samþykkt þeirra. Ég vek athygli á því, frú forseti, að vegna vinnulagsins sem hér er viðhaft er stór hluti fjárlaga marklaus þegar þau eru samþykkt. Þess vegna er brýnt að lokafjárlög fyrra árs og fjáraukalög yfirstandandi árs séu fyrirliggjandi þegar fjárlög næsta árs eru ákveðin. Allt annað eru slæm vinnubrögð og ekki Alþingi til sóma.

Í áðurnefndri ræðu fjármálaráðherra bendir hann á að sumar stofnanir hafi velt halla af rekstri sínum yfir áramót ár eftir ár og treyst á það að á endanum verði vandinn það mikill að óhjákvæmilegt verði að taka á honum í fjáraukalögum. Ekkert þarf að vera óeðlilegt við að halli verði á einu ári í rekstri stofnunar, enda sé tekið á honum á næsta fjárhagstímabili. En þegar halli safnast upp ár eftir ár ber viðkomandi ráðuneyti og forstöðumanni að taka á vandanum. Ef ekki þá ber Alþingi að gera það. Ég vil ítreka að það er nauðsynlegt að minna á að ríkisstofnanir í A-hluta eru reknar að fullu á ábyrgð ríkissjóðs og hafa þess vegna takmarkaða heimild til þess að vera að safna upp skuldum á milli ára sem þó hefur verið látið viðgangast og reyndar oft reiknað með.

Þá er kafli um niðurfellda stöðu fjárveitinga í A-hluta.

Í þessari grein er lagt til að stöður fjárheimilda í árslok verði felldar niður og flytjist því ekki yfir á næsta ár. Hér er stuðst við þá meginreglu að í þeim tilvikum þegar útgjöld ráðast með beinum hætti af öðrum lögum en fjárlögum, svo sem útgjöld almannatrygginga, er staðan ekki flutt til næsta árs heldur felld niður. Sama gildir um stöður fjárlagaliða þar sem útgjöld ráðast af hagrænum breytingum eða ef útgjöld fjárlagaliðar eru ekki þáttur í rekstri tiltekins ábyrgðaraðila. Samtals nema þessar breytingar 5.619,6 millj. kr.

Stærsti einstaki liðurinn er 09-381 Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun, en þar er gert ráð fyrir að felld verði niður umframgjöld að fjárhæð 5.767,3 millj. kr. Samkvæmt fjárlögum ársins 2006 voru þessi útgjöld áætluð 4.798,0 millj. kr. en niðurstaðan varð 10.565,3 millj. kr. Útgjöldin hafa því tvöfaldast og nú á að leita heimilda fyrir þessum útgjöldum mörgum árum seinna án nokkurrar umræðu né skýringa. Fyrir þessum kostnaðarauka átti að leita heimilda í fjáraukalögum ef talið er að hann hafi verið ófyrirsjáanlegur og ekki átti að koma strax inn í viðkomandi frumvarp til fjárlaga.

Annað dæmi er fjárlagaliðurinn 08-447 Sóltún í Reykjavík, en þar eru felld niður umframútgjöld að fjárhæð 141 millj. kr. Hér vekur athygli að ekki er um venjulega A-hluta stofnun að ræða sem rekin er á ábyrgð ríkissjóðs 100%. Nei, hér er um að ræða rekstrarverkefni sem ríkið hefur úthýst frá sjálfu sér og gert samning um við einkaaðila. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að fella niður þessa skuld án nokkurra skýringa. Þess vegna krafðist ég á fundi í fjárlaganefnd þar sem þetta var til umfjöllunar að lagðar yrðu fram ítarlegar skýringar á því að í rauninni væri verið að veita Sóltúni 141 millj. kr. í rekstrarfé á árinu 2006 án nokkurra skýringa og nokkurra umræðna. Samt reyndist ekki unnt að fá viðhlítandi skýringar á því.

Fleiri fjárlagaliði mætti tína hér til en þetta dæmi sýnir veikleika í fjárlagagerðinni og stjórn ríkisfjármála og þar ber fjármálaráðherra mesta ábyrgð því að hann ber höfuðábyrgð fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á framkvæmd fjárlaga. Taka þarf til skoðunar sjálfvirka útgjaldaþenslu ýmissa fjárlagaliða sem ekki taka tillit til fjárlaga og fá síðan uppreisn æru í lokafjárlögum.

Það er athyglisvert, frú forseti, að ef farið er yfir þennan lista, sem er algerlega án skýringa, er mjög erfitt að átta sig á því hvað er að gerast. Ég t.d. tók eftir því á bls. 50 í lokafjárlögunum að þar er verið að fella niður skuld sem þýðir aukna fjárheimild upp á 10,5 millj. kr. vegna viðbúnaðar í sýklahernaði. Auðvitað er sýklahernaður alveg stórhættulegur og mér finnst að lögreglan ætti að einbeita sér að því að grípa alla þá sem fara um landið með sýklahernaði og gera ráð fyrir því að það að verja fjármunum til vígbúnaðar gegn sýklahernaði hljóti að byggjast á einhverri áhættugreiningu og þarfagreiningu í þeim efnum. Ég vil því spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort honum sé kunnugt um áhættu- og þarfagreiningu fyrir því að verja fjármunum sérstaklega á lokafjárlögum, ekki til sýklahernaðar heldur til viðbúnaðar gegn sýklahernaði. Til hvaða tilvika er þarna verið að vitna? Hvað kom upp á árinu 2006? Hvað kom upp í sýklahernaði á landinu 2006 sem gerir það að verkum að það þurfti að veita einhvers konar aukafjárveitingu á lokafjárlögum upp á 10,5 millj. kr. til að bregðast við sýklahernaði á árinu 2006. (Gripið fram í: Er þetta miltisbrandur?) Ég hef ekki trú á því að þetta sé miltisbrandur en það væri mjög fínt að fá nákvæma skýringu á þessu og láta þetta ekki koma óskýrt inn í fjáraukalög. Þó að hv. formaður fjárlaganefndar sé mjög glöggur, og meira að segja varaformaðurinn líka, á hina ýmsu þætti ríkisfjármálanna — (Gripið fram í.) þeir eiga báðir hrós skilið í þeim efnum og ekki síst af því að þeir sitja hérna inni — þá heyri ég að honum verður svarafátt um þennan sýklahernað sem þarna er verið að leggja 10,5 millj. kr. í. Hægt er að telja upp fleiri slík dæmi.

Auk þess er líka mjög óeðlilegt og erfitt fyrir fjársýslu ríkisins og vinnu fjárlaganefndar til að meta fjárþörf einstakra stofnana og viðfangsefna þegar maður uppgötvar og fær upplýsingar nokkrum árum seinna um að viðkomandi stofnanir yrðu með einhverja inneign, inneign á fjárlögum, eru með inneign á viðskiptareikningi sínum, A-hluta stofnanir jafnvel, háar upphæðir ár eftir ár sem safnast upp sem inneign. Þegar við erum síðan að meta fjárþörf hinna ýmsu verkefna fyrir fjárlög næsta árs fyrir viðkomandi stofnun þá höfum við ekki hugmynd um að hún á stórar upphæðir inni. Það er ekki síður erfitt að vera með fjárstýringu af hálfu ríkisins gagnvart inneignum sem safnast upp ár eftir ár heldur en þeim sem safnast með halla ár eftir ár. Þegar verið er að vinna fjárlög eftir bestu samvisku þá liggja ekki allar þessar upplýsingar fyrir og þá verða þau aldrei raunsönn.

Frú forseti. Ég er kominn mjög langt í ítarlegu nefndaráliti sem við þrír þingmenn sem skipum minni hluta fjárlaganefndar stöndum að, auk mín eru það hv. þm. Bjarni Harðarson, fyrir hönd Framsóknarflokksins, og Guðjón Arnar Kristjánsson, fyrir hönd Frjálslynda flokksins. Við berum virkilega væntingar til þess að tekið verði á vinnulaginu og framkvæmd við fjárlagagerðina þó að ég verði að viðurkenna að vonbrigðin vaxa við að láta eitthvað gerast verklega í þeim efnum, því miður.

Samkvæmt frumvarpinu flytjast yfir á árið 2007 afgangsheimildir að fjárhæð 28,3 milljarðar kr. og umframgjöld að fjárhæð 15,4 milljarðar kr. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þennan flutning fjárheimilda, svo oft hefur minni hlutinn gert athugasemdir við hann. Fáránleikinn birtist m.a. í því að stofnunum er í mörgum tilfellum gert að flytja með sér halla sem getur numið 30–50% af fjárlögum viðkomandi árs. Minni hlutinn ítrekar því þá tillögu sem fram hefur komið að sjálfkrafa flutningur fjárheimilda verði bundinn við 4% en allt umfram það þurfi sérstakt samþykki Alþingis í tengslum við fjárlög hvers árs. Ekki gengur að stofnanir séu reknar á öðrum forsendum en fjárlög gera ráð fyrir og verður að taka á málum um leið og sýnt er að stofnun ræður ekki sjálf við vandann.

Inneignin er ekki vandi annað en að með því erum við ekki að vinna raunsönn fjárlög. Það er ekki markmiðið þó að eftir þessu verði farið, að taka fjárveitingar af stofnun. Markmiðið er að fjárlög hvers árs taki til þeirra fjármuna sem ætlað er að stofnunin hafi á næsta ári og til þeirra verkefna sem henni er ætlað að fást við.

Fjármálaráðuneytið á að hafa heildarsýn yfir fjármál ríkisins og gæta hagsmuna ríkissjóðs á hverjum tíma og í því felst m.a. að forðast að ríkissjóður þurfi að greiða dráttarvexti eða annan kostnað vegna halla stofnunar. Það er óeðlilegt að stofnun eins og Landspítalinn hafi greitt mörg hundruð millj. kr. í dráttarvexti án þess að fjármálaráðuneytið hafi gripið í taumana. Hér er um að ræða fé skattborgara þessa lands og þeir eiga heimtingu á að vel sé farið með fé landsmanna. Þarna komum við að gríðarlega mikilvægum þætti í fjárstýringu af hálfu ríkisins. Mér sýnist að fjárstýring af hálfu ríkisins sé afar handahófskennd og fjarri því að uppfylla það að vera með skilvirkum hætti. Fjöldi stofnana verður að fjármagna sig á lánum annaðhvort hjá viðskiptaaðilum eða með lántökum við banka vegna þess að dreifing fjármuna innan ársins er ekki í takt við fjárþörf stofnunarinnar sjálfrar. Á fund fjárlaganefndar hafa komið mörg dæmi þess að verið er að knýja stofnanir til að búa til rangar fjárhagsáætlanir innan ársins. Ef fjármálaráðuneytið samþykkir þær ekki eða þær eru ekki eftir þeirra höfði þá eru þær sendar til baka þrátt fyrir að stofnanirnar viti auðvitað sjálfar best hvernig fjárstreymið á að berast inn til þeirra. Ég hefði því viljað og hef lagt ósk um það í fjárlaganefnd að tekið yrði á fjárstýringu fjármálaráðuneytisins gagnvart stofnunum innan ársins. Sú fjárstýring er víða í miklum ólestri.