136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[18:08]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það hjá hv. þingmanni að þörfin fyrir dvalarrými er kannski önnur í dreifbýli en í þéttbýli. Á hinn bóginn eru mörg dvalarrými þess eðlis í dag að að þau eru vart boðleg, það er bara þannig, á mjög mörgum stöðum úti um allt land. Ég held að við báðar sem þingmenn höfum heimsótt nokkuð mörg dvalarheimili og hjúkrunarrými um landið og mörg þeirra eru engan veginn boðleg fólki í dag sökum þrengsla og sökum aðstöðu.

Það sem ég benti á í máli mínu áðan var að í þeim sveitarfélögum þar sem boðið er upp á þjónustuíbúðir, leiguíbúðir þess vegna, þá er það mun betri kostur, því að dvalarrýmin eru í rauninni eitt herbergi, oft varla aðstaða fyrir annað en rúmið og oft ekki salerni nema frammi á gangi. Þannig er raunveruleikinn allt of víða um landið, því miður, og jafnvel á hjúkrunarheimilunum einnig. Þetta eru atriði sem þarf að taka til skoðunar. Fjármögnunin getur verið með ýmsu móti. Fólk í dag, langstærstur hluti, yfir 90% aldraðra einstaklinga, á sitt eigið húsnæði. Auðvitað má skoða ýmis úrræði í þá veru, því að fyrst og fremst er fólk að leita eftir öryggi og aðstöðu til þess að njóta ævikvöldsins.

Varðandi nefskattinn og tekjustofna sveitarfélaga. Það er vissulega svo að í þeim tilvikum sem öldrunarþjónusta er alfarið færð yfir til sveitarfélags, sem ég tel reyndar vera mjög æskilegt og horfi m.a. til Hafnar í Hornafirði í þeim efnum, þá segir það sig sjálft að tekjustofnar þurfa að fylgja með. Þegar þjónusta er flutt frá ríkinu til sveitarfélaga þarf að flytja fjármagn með en við höfum líka dæmi um að kröfur um aukið fjármagn verða mjög miklar við slíkan flutning.