136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[18:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er tiltölulega einfalt og skýrt og eins og fram hefur komið í nefndarstörfum er ekki sérstakur pólitískur ágreiningur um það. Ég þakka framsögumanni nefndarinnar fyrir skýra framsögu.

Ég verð reyndar að játa að mér finnst vangaveltur í nefndaráliti komnar dálítið út fyrir efni frumvarpsins en það er auðvitað álitamál hvernig á að haga því. Mér finnst verið að fara út í atriði sem ekki snerta efni frumvarpsins með beinum hætti.

En af því tilefni og af því að vísað er til vinnu félags- og tryggingamálaráðherra, starfshóps sem er að vinna að heildarendurskoðun barnaverndarlaganna, vil ég spyrja framsögumann nefndarinnar, hv. þm. Þuríði Backman, hvar sú vinna sé stödd, hvort komið hafi fram í störfum félagsmálanefndar hvernig þeirri vinnu miðar.

Í því sambandi velti ég einkum fyrir mér þeim atriðum sem snúa að málum sem geta varðað allsherjarnefnd sem er sú nefnd sem ég á sæti í og kemur að barnalögum með ýmsum hætti. Það er raunar oft álitamál hvort einstök atriði í þessu sambandi eigi fremur heima undir allsherjarnefnd eða félags- og tryggingamálanefnd þótt ekki væri ágreiningur um það í þessu tilviki að þetta mál færi til félags- og tryggingamálanefndar.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvað hafi komið fram um starf starfshóps félagsmálaráðherra. Það er auðvitað ljóst að þegar verið er að gera svona einstakar breytingar þá skiptir heildarsamhengið máli og (Forseti hringir.) því er mikilvægt að vita hvernig þau mál standa.