140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki betur en að ég hafi lesið það í athugasemdum Hagstofunnar að þeir teldu einmitt að gögn þeirra væru ekki ætluð til slíks brúks eins og verið er að nota þau hér, en hv. þingmaður leiðréttir það þá væntanlega.

Ég held að mjög mikilvægt sé að hv. þingmaður fari vel yfir í ræðu þær aðrar tillögur sem hafa komið fram varðandi útreikninga á veiðigjaldinu. Mig langar líka að spyrja: Er eitthvað því til fyrirstöðu að taka þær hugmyndir upp í nefndinni? Ég segi: Ef þær hugmyndir eru til þess fallnar að varpa betra ljósi á stöðu og getu fyrirtækjanna til að ná sátt um einhverja niðurstöðu, eitthvað sem menn geta talið hóflegt, mæst einhvers staðar þar, þá vil ég hvetja hv. þingmann og nefndarmenn alla í atvinnuveganefnd að setjast yfir þær hugmyndir og tillögur. Það er óþarfi, finnst mér, að vera með málið hér allt í hnút og (Forseti hringir.) uppnámi ef það er virkilega þannig að til eru aðrar og betri leiðir.