141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

hlutafélög.

661. mál
[21:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að hér eru tveir hv. þingmenn úr efnahags- og viðskiptanefnd, við hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem erum að tala fyrir frumvörpum til laga sem alla jafna koma hér af hálfu stjórnarmeirihlutans, en svona er þetta nú samt.

Þetta frumvarp er ekki stórt í sniðum en er til komið þannig að það er unnið upp úr frumvarpi sem kom fram um opinber hlutafélög og var alveg ljóst að ekki væri hægt að klára það á þessu þingi. Þess vegna fór nefndin þá leið að verða við beiðni atvinnu- og nýsköpunarráðherra að flytja frumvarp um afmarkaðan þátt þess sem snýr að innleiðingu á EES-reglum. Þetta snýr fyrst og fremst að boðun aðalfundar og hluta sem að því snúa og er kannski ekki sérstaklega stórt í sniðum og mun ekki breyta hlutum í grundvallaratriðum á Íslandi, svo mikið er víst. Hins vegar erum við með frumvarpinu að uppfylla EES-reglur og þess vegna er það til komið að hv. efnahags- og viðskiptanefnd flytur þetta mál.