141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:31]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir nefndaráliti frá minni hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka. Ég gríp niður í álitið, með leyfi forseta:

Minni hlutinn leggst ekki gegn þeirri afgreiðslu frumvarpanna sem meiri hlutinn leggur til. Eigi að síður hefur minni hlutinn áhyggjur af ákveðnum þáttum sem snerta frumvörpin.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands eru settar fram fremur alvarlegar athugasemdir. Í fyrsta lagi telur sambandið eðlilegra að nýta þær heimildir sem felast í almennum lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, í stað þess að gera sérstakan fjárfestingarsamning á grundvelli sérlaga. Bendir sambandið á að með þessu sé farið gegn yfirlýsingum sem koma fram í undirbúningsgögnum framangreindra laga nr. 99/2010. Í öðru lagi leggst sambandið gegn 4. tölulið 2. mgr. 3. gr. frumvarps í 632. máli, um kísilver í landi Bakka, þar sem gert er ráð fyrir að heimilt verði að veita PCC BakkiSilicon hf. undanþágu frá greiðslu almenns tryggingagjalds.

Minni hlutinn telur ljóst að þær ívilnanir sem lagðar eru til í frumvarpi í 632. máli, um kísilver í landi Bakka, séu verulegar samanborið við ívilnanir samkvæmt ákvæðum laga nr. 99/2010. Á fundi nefndarinnar kom fram að ákvæði frumvarpsins hefðu í för með sér ívilnun sem næmi allt að 10% heildarfjárfestingarinnar en lögin gerðu aftur á móti ráð fyrir ívilnunum sem næmu um 2% hennar. Í þessu samhengi er fróðlegt að gera samanburð á ívilnunum frumvarpanna og ívilnunum sem veittar hafa verið á síðustu árum.

Virðulegi forseti. Síðan er vitnað til ummæla hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, þar sem hann í ræðu fór yfir hversu stór styrkurinn hafi verið í Helguvíkurverkefninu annars vegar og hins vegar í Alcoaverkefninu, þar sem kemur fram að áætlaður heildarstyrkur í Helguvíkurverkefninu hafi átt að vera 0,9% af áætluðum stofnkostnaði en í verkefni Alcoa í Fjarðaáli á Reyðarfirði hafi styrkurinn numið 1,83% af stofnkostnaði og er þá rétt að bera það saman við þau 10% sem áætlað er að verði heildarfjárfestingin nú til styrks af því verkefni sem hér um ræðir.

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta:

Samkvæmt upplýsingum minni hlutans menga kísilver mun meira en álver. Samkvæmt tölum um framleiðslu þeirra þriggja kísilvera sem áætlað er að byggja upp munu þau samanlagt losa 720 þús. tonn af koltvísýringi árlega við vinnslu á 176 þús. tonnum af kísil. Til samanburðar hefur verið rætt um að fyrirhugað álver í Helguvík muni losa samtals 365 þús. tonn af koltvísýringi við 250 þús. tonna álvinnslu. Í þessu ljósi mætti halda því fram að það gæti ákveðins tvískinnungs þegar þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs halda því annars vegar fram að þeir leggist gegn mengandi orkufrekum iðnaði en ætli sér hins vegar að greiða atkvæði með afgreiðslu frumvarpanna óbreyttra. Ef til vill má halda því fram að það sé á ákveðinn hátt ankannalegt að það skuli vera fyrrverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem leggur málið fram og mælir fyrir því.

Að auki telur minni hlutinn viðeigandi að rifja upp eftirfarandi orð sem féllu af vörum Katrínar Júlíusdóttur, þáverandi iðnaðarráðherra, þegar hún mælti fyrir frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 99/2010. Við það tilefni sagði Katrín m.a.:

„Með frumvarpinu er verið að leggja til að horfið verði frá því fyrirkomulagi sem hefur tíðkast hér á landi að gera sértæka fjárfestingarsamninga vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi, eins og við þekkjum orðið nokkuð vel, og síðan samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem þörf hefur verið metin á í hvert skipti. Hefur það fyrirkomulag reynst þungt í vöfum og ómarkvisst og með því formi er ekki boðið upp á nægilegan sveigjanleika til að mæta ólíkum fjárfestingarverkefnum.

Virðulegi forseti. Í þessum efnum þurfum við auðvitað að horfa til jafnræðis. Við þurfum líka að horfa til þess að tiltölulega fáir fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir hér á landi. Frá árinu 1966 hafa sex verið undirritaðir og sá sjöundi er hugsanlega í meðförum þingsins núna. Þessir sex fjárfestingarsamningar sem undirritaðir hafa verið eru vegna álvera og járnblendiverksmiðju, þ.e. stóriðju, þannig að þessar sérstöku ívilnanir og örvanir til uppbyggingar hafa verið notaðar til tiltölulega einhæfra verkefna.“

Þetta var tilvitnun í ræðu hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur.

Svo heldur áfram í nefndarálitinu, virðulegi forseti:

Að mati minni hlutans kristallar sú staða sem endurspeglast í frumvörpunum að það er ekki vinnandi vegur að ætla sér að ná því markmiði að laða að fjárfestingu í íslenskum atvinnuvegum með almennum lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Sýnt er að slík almenn lög verða seint nægilega sveigjanleg til þess að þau hafi virkni. Á fundum nefndarinnar kom m.a. fram það álit Íslandsstofu að í lög nr. 99/2010 vantaði úrræði eða tæki til þess að þau næðu markmiðum sínum. Í því ljósi er rétt að benda á að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/2010 (502. mál) þar sem lagðar eru til ákveðnar breytingar á lögunum í því skyni að gera landið meira aðlaðandi fyrir fjárfestingu. Það frumvarp hefur sætt nokkurri gagnrýni vegna þess að með því er ætlunin að breyta almennum lögum sem falla úr gildi í árslok. Telja ýmsir umsagnaraðilar breytinguna til marks um hringlandahátt. Ef til vill er hægt að segja að markmið laga nr. 99/2010 hafi á sínum tíma verið virðingarverð en nú er að minnsta kosti ljóst að þau þarf að taka til endurskoðunar.

Undir þetta skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson framsögumaður og Einar K. Guðfinnsson.