141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[02:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hann um. Hæstv. ráðherra vitnaði í að fyrir lægi samningur á milli fyrirtækisins og stjórnvalda með fyrirvara um þær lagabreytingar sem hér um ræðir. Mig langar að spyrja hann út í það sem snýr að gjaldeyrishöftunum. Gæti það haft áhrif á samninginn eða er gert ráð fyrir því í samningnum að fyrirtækið fari svokallaða fjárfestingarleið Seðlabankans, þ.e. gæti það haft áhrif ef fyrirtækið er ekki búið að fjármagna sig, sem ég er ekki alveg klár á? Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort fyrirtækið sé búið að koma með fjármuni inn í landið, kannski í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, og hvort það gæti haft áhrif ef gjaldeyrishöftum yrði aflétt eftir einhvern tíma eða áður en verkefnið er farið af stað?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í tryggingagjaldið, út af þeim vangaveltum sem ég var með í ræðu minni áðan sem sneri að því að fyrirtækið hefði undanþágur í kjarnastarfseminni, eins og má kannski orða það, en það er kannski ekkert voðalega gott að henda reiður á því sem er kjarnastarfsemi og hvað ekki, ég átta mig á því. Fyrirtækið muni ekki fara í frekari atvinnurekstur í kringum atvinnuuppbygginguna en telja megi eðlilegt, sem er reyndar líka erfitt að setja puttann á hvað það er nákvæmlega. Telur hæstv. ráðherra að skoða þurfi það eitthvað frekar? Hvert er mat hans á því, varðandi það að fyrirtækið fari ekki út í annað en sem eðlilegt er og taki ekki frá öðrum fyrirtækjum sem eru stoðfyrirtæki eða þjónustufyrirtæki? Mig langar að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við þessu tvennu.