143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

Vatnajökulsþjóðgarður.

422. mál
[10:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er voru samþykkt á Alþingi lög um Vatnajökulsþjóðgarð árið 2007, nr. 60/2007, og er markmið þeirra að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Jafnframt er það markmið laganna að auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins. Vatnajökulsþjóðgarður er afar metnaðarfullt verkefni í náttúruvernd sem tekur til umfangsmikilla víðerna sem spanna um 15% af flatarmáli landsins og er annars stærsti þjóðgarður Evrópu, en í Rússlandi er til aðeins stærri þjóðgarður.

Margt hefur tekist mjög vel til með Vatnajökulsþjóðgarð og er meðal annars bent á að ný atvinnutækifæri hafa skapast heima í héraði, þetta er öflugt náttúruverndarverkefni sem heimamenn hafa ríka aðkomu að og eins skiptir þjóðgarðurinn miklu fyrir ferðaþjónustuna í landinu.

Velvilja heimamanna og skilningi fyrir vernd á sérstökum náttúrumyndunum og lífríki verður ef til vill best lýst með stækkun þjóðgarðsins frá stofnun árið 2007, en frá þeim tíma hafa mörk þjóðgarðsins breyst þrisvar sinnum, þ.e. í samræmi við reglugerðir nr. 755/2009, 764/2011 og 463/2013. Stækkun verndarsvæða byggir á samkomulagi við landeigendur og viðkomandi sveitarfélag hverju sinni.

Árið 2009 bættist verulega við norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs þegar Askja og Dyngjufjöll og landsvæði þar norður af varð hluti hans. Á sama tíma bættist einnig við landsvæði á suðursvæði, þ.e. austan við Hoffellsjökul, og er það land í einkaeign. Við þessa stækkun varð náttúruvættið í Öskju hluti þjóðgarðsins.

Árið 2011 bættist við land á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs þegar Langisjór og nágrenni varð hluti þjóðgarðsins. Svæðið er að hluta þjóðlenda, þ.e. landsvæði norðan Skaftártunguafréttar og þjóðlenda og afréttur. Árið 2013 bættist við landsvæði á austursvæði, þ.e. Kverkfjöll og Krepputunga sem er þjóðlenda kennd við Krepputungu.

Nú er einmitt í farvatninu stækkun á norðursvæði, eins og hv. þingmaður spurði um, en bæjarstjórn Norðurþings hefur samþykkt tillögu ráðuneytisins um að Meiðavallaskógur í Kelduhverfi verði hluti garðsins en skógurinn var undanskilinn sölu jarðarinnar Meiðavalla árið 2000.

Möguleikar eru á stækkun garðsins til norðurs. Stækkun þjóðgarðsins þarf hins vegar að byggjast á samvinnu og samkomulagi og á þeim grunni að þjóðgarðurinn hafi getu til að annast þau landsvæði sem sett eru undir hans stjórn. Það er því mikilvægt að ákvarðanir um stækkun þjóðgarðsins séu ávallt teknar í góðu samstarfi við heimamenn. Brýnt er að hlúa vel að þeim svæðum innan þjóðgarðsins sem við höfum nú þegar og marka heildarstefnu um uppbyggingu innviða og vernd náttúru innan hans.

Varðandi stjórnfyrirkomulagið er í lögum um garðinn ákvæði til bráðabirgða þar sem segir í 4. tölulið:

„Ákvæði laga þessara um stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs skulu eigi síðar en 1. janúar 2013 endurskoðuð í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.“

Til að framfylgja þessu ákvæði skipaði ráðherra í janúar 2013 starfshóp sem fékk það hlutverk að fara yfir framanskráð bráðabirgðaákvæði og gera tillögu að breytingum á stjórnfyrirkomulagi garðsins ef með þarf. Í starfshópnum áttu sæti Gunnþórunn Ingólfsdóttir, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps og fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Daði Már Kristófersson, dósent í umhverfis- og auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, og Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Var hann formaður hópsins.

Starfshópurinn leitaði til helstu aðila sem koma að stjórn þjóðgarðsins og óskaði eftir svörum þeirra og ábendingum við þremur spurningum. Almenningi var einnig gefinn kostur á að svara spurningunum þar sem þær voru settar fram á heimasíðu ráðuneytisins. Nýttu 30 aðilar sér þann möguleika. Spurningarnar sem lagðar voru fram eru:

1. Hvernig finnst þér hafa tekist með stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs? Kostir og gallar.

2. Mundir þú vilja leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi stjórnunar Vatnajökulsþjóðgarðs? Ef svo er, hverjar ættu þær að vera og af hverju?

3. Aðrar ábendingar til starfshópsins varðandi stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs?

Starfshópurinn fundaði einnig með heimamönnum á hverju rekstrarsvæði og hélt opna fundi um málefnið. Starfshópurinn skilaði ráðherra tillögum sínum þann 18. júlí 2013, þ.e. síðasta sumar, og er skýrsla hópsins aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins. Niðurstöður starfshópsins eru í stuttu máli þær að valddreift stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs og náið samstarf við sveitarstjórnir og hagsmunasamtök hafi í grundvallaratriðum reynst vel. Hópurinn gerir jafnframt nokkrar tillögur að breytingum á lögunum og öðrum atriðum sem betur mættu fara, meira lagfæringar. Þær ábendingar snúast sem sagt fyrst og fremst að því að skýra valdmörk, verkferla og boðleiðir. Tillögur starfshópsins voru kynntar fulltrúum allra þeirra sveitarstjórna sem aðild eiga að þjóðgarðinum og í ráðuneytinu er nú hafin vinna við að gera breytingar á lögum um þjóðgarðinn til samræmis við tillögur nefndarinnar.