143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

Vatnajökulsþjóðgarður.

422. mál
[10:50]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda umræðuna um Vatnajökulsþjóðgarð, möguleikana þar og þá reynslu sem við höfum fengið nú þegar af starfsemi hans. Stór hluti hans er í Suðurkjördæmi. Ég hef auðvitað fylgst mjög vel með því og náið hvernig menn hafa, misjafnlega vel, virkjað garðinn eftir sínum hagsmunum. Þar sem best hefur tekist til hefur reynslan verið mjög góð og orðið uppspretta nýrra atvinnutækifæra fyrir utan auðvitað náttúruverndina sem felst í því að vera með þjóðgarð.

Eins og ég kom inn á í svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns tel ég að það sé ekki í sjálfu sér markmið að stækka þjóðgarðinn sem mest, heldur verði hann fyrst og fremst að ráða við þær stækkanir. Þær verða að vera í samræmi við starfsemi garðsins og í mjög miklu og nánu samráði og samkomulagi við annars vegar landeigendur og hins vegar sveitarfélög.

Varðandi það frumvarp sem er boðað þá reikna ég með að það komi strax í haust. Það er rétt að þar verður skerpt fyrst og fremst á því ástandi sem er. Ég tel að fyrirkomulagið á stjórn þjóðgarðsins sé gott. Ég heimsótti þjóðgarðinn í Skotlandi upp úr aldamótum, sem er einmitt með svona dreifða stjórn á sínu sviði þar sem ýmist heimamenn eða aðrir koma að. Heimamenn eru í meiri hluta stjórnarinnar og ég tel það mjög mikilvægt. Ég tel að starfsemi garðsins eigi einnig að fara sem mest fram innan þjóðgarðsins, þ.e. innan þess svæðis sem þjóðgarðurinn tekur til, líka stjórn hans og allt umfang. Ég er ekki á þeirri skoðun að koma eigi á fót sérstakri stofnun sem færir allt vald til Reykjavíkur. Hins vegar getur verið skynsamlegt að taka tilliti til þeirra tillagna frá hagræðingarhópnum að það yrði meira samræmi í þeim vinnubrögðum sem við viðhöfum við stýringu, eftirlit og þjónustu við þjóðgarða og (Forseti hringir.) friðlýst svæði, á einum og sama stað.