143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

losun gróðurhúsalofttegunda.

449. mál
[10:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Staða Íslands hvað varðar möguleika til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er um margt ólík því sem gerist í öðrum þróuðum ríkjum. Á heimsvísu er brennsla jarðefnaeldsneytis til hitunar og rafmagnsframleiðslu stærsta einstaka uppspretta losunar. Hér á landi fer slík orkuframleiðsla nær eingöngu fram með vatnsafli og jarðhita en ekki með kolum og olíu og því eru lítil tækifæri þar. Alls er losun frá orkuframleiðslu hér rúmlega 200 þús. tonn af koldíoxíði á ári, en ef sama orka væri framleidd með bruna kola væri losunin allt að 10 milljónir tonna. Orkubúskapur Íslendinga telst því loftslagsvænn og hlutfall endurnýjanlegrar orku er hvergi hærra í ríkjum OECD.

Við erum því fremst, hvort sem okkur finnst nú gaman að stæra okkur af því eða ekki. Við erum það sannarlega á þessu sviði.

Eru þá engin sóknarfæri fyrir Ísland? Jú, þau eru fyrir hendi, þau hafa verið kortlögð af sérfræðingum, bæði hvað varðar umfang og kostnað. Töluverð sóknarfæri eru í samgöngum. Nú eru rafmagnsbílar að koma í vaxandi mæli á almennan markað og þar tel ég tvímælalaust vera mikið sóknarfæri því að hér er rafmagn tiltölulega ódýrt og einnig loftslagsvænt.

Einnig hefur verið aukning á metanbílum þótt framboð á metani sé minna en á rafmagni. Töluverð aukning hefur orðið í hjólreiðum á undanförnum árum og allt þetta er jákvæð þróun.

Einnig eru sóknarfæri í sjávarútvegi. Það er ánægjuleg þróun að fiskimjölsverksmiðjur hafa margar skipt yfir í rafmagn frá olíu og er það gott dæmi um frumkvæði atvinnulífsins sem gagnast í loftslagsmálum. Þar eru þó tæknilegar hindranir í vegi sums staðar sem þarf að skoða, en það væri umtalsverður ávinningur ef hægt væri að rafvæða alla fiskimjölsframleiðsluna. Þá koma inn byggðalínur og uppbygging Landsnets.

Fiskveiðistjórnarkerfið hefur stuðlað að fækkun í fiskiskipaflotanum og eldsneytisnotkun flotans því snarminnkað, jafnvel um þriðjung á síðustu árum. Framsækin íslensk fyrirtæki á borð við Marorku bjóða upp á loftslagsvænar lausnir í skipum og þar er vaxtarbroddur í nýsköpun sem vert er að gefa gaum.

Stóriðjan nýtir endurnýjanlega orku og losun frá hverju tonni af áli hér á landi er til dæmis með því minnsta sem þekkist. Mikill og góður árangur hefur náðst í íslenskum álverum varðandi lágmörkun losunar á flúorkolefnum sem eru mjög virkar gróðurhúsalofttegundir. Einnig er rétt að geta þess að stóriðja hér er hluti af hinu evrópska viðskiptakerfi með losunarheimildir og býr þannig við strangt aðhald varðandi losun.

Mér finnst rétt að skoða hvort hægt sé að gera meira á sviði landbúnaðar. Almennt er talið að erfitt sé að minnka losun í landbúnaði, en þar má þó meðal annars skoða söfnun og nýtingu metans í haughúsum. Síðast en ekki síst er svo rétt að nefna bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi með skógrækt og landgræðslu og bendi ég þá á stefnu ríkisstjórnar framsóknar- og sjálfstæðismanna um það. Þar telja sérfræðingar að liggi kannski okkar mestu möguleikar til að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda á hagkvæman hátt.

Framtíðarsýn ráðherra í þessum efnum er þessi: Ég vil að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar, við getum alltaf gert betur, eins og sanngjarnt er í alþjóðlegum samningum á sviði loftslagsmála. Til skamms tíma er horft þar á annað tímabil Kyoto-bókunarinnar sem hófst í fyrra. Til lengri tíma horfi ég til nýs alþjóðlegs samnings sem á að takmarka losun á heimsvísu og taka gildi árið 2020.

Framtíðarsýn okkar verður að ná lengra og víðar en aðeins til losunar innan lands. Losun frá Íslandi er einungis 0,01% af heimslosun. Ísland getur hins vegar haft áhrif út fyrir landsteinana, m.a. með því að styðja við nýtingu jarðhita, bæði í þróuðum ríkjum og þróunarlöndum.

Ég heimsótti nýlega Japan, þar er mikill vannýttur jarðhiti og menn horfa til Íslands varðandi þekkingu, ekki síst varðandi hitaveitu. Ég ávarpaði þar fjölmenna ráðstefnu og skynjaði mikinn sóknarhug þarlendra hvað þetta varðar. Jarðhitavæðing í þróunarríkjunum er líka stór þáttur í loftslagsstefnu Íslands og læt ég þar nægja að nefna lykilþátt Íslands í stóru verkefni sem miðar að því að nýta jarðhita í yfir tug ríkja í austan- og sunnanverðri Afríku sem Alþjóðabankinn og fleiri koma að.

Þá má ekki gleyma hlut Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi sem hefur þjálfað sérfræðinga frá fjölmörgum löndum í 35 ár og með því byggt upp þekkingu á nýtingu jarðvarma og rekstri virkjana víða um heim. Mögulega hefur enginn íslenskur aðili haft meiri áhrif til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en Jarðhitaskólinn þótt vissulega sé erfitt að mæla slíkt og færa sönnur á slíkar staðhæfingar. Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna er svo annað dæmi um þróunar- og þekkingarverkefni á Íslandi sem stuðlar að loftslagsvænum lausnum á heimsvísu.

Hvað varðar framtíðarsýn á þróun losunar á Íslandi þætti mér auðvitað gott ef hægt væri að knýja farartæki og fiskiskip með innlendum orkugjöfum í stað erlends jarðefnaeldsneytis. Það er hæg þróun í þá átt, en spurningin er hvort við getum hraðað henni og ég vil skoða leiðir til þess. Ég vil líka gjarnan efla skógrækt og landgræðslu og fleiri loftslagsvænar lausnir á sviði landnotkunar. Þar fer saman áratugalöng barátta okkar við að snúa landeyðingu við en um leið að vernda andrúmsloftið. Þetta er líka viðurkennd leið samkvæmt Kyoto-bókuninni og mjög hagkvæmur kostur fyrir Ísland að mati sérfræðinga.