144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum komin fram í hádegið á föstudegi fyrir hvítasunnuhelgi. Við fengum þau skilaboð í morgunsárið að engir fundir væru ákvarðaðir í stærstu ágreiningsmálunum, þ.e. hvorki hjá BHM þar sem ríkisstjórnin, stjórnvöld, er samningsaðilinn á móti BHM, né um hinar stærstu kjaradeilur á almenna markaðnum. Það er óskaplega mikið áhyggjuefni að Alþingi Íslendinga skuli að auki sitja hjá og ekki ræða málin eða leita einhverra leiða til að fá fram hvaða möguleikar eru til að leysa stöðuna.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé öruggt að hér verði fundir í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað með þingflokksformönnum og helst með formönnum stjórnmálaflokkanna til að finna veginn fram á við hvað varðar málsmeðferð í þinginu. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þingið og það er mikilvægt fyrir samfélagið (Forseti hringir.) líka ef við eigum einhvern tímann að geta endurheimt eitthvert traust.